Mörg hundruð stöðugildi, sem fjárhagsáætlanir gera ráð fyrir, eru ómönnuð á Landspítalanum, og of margir sjúklingar liggja þar inni. Rúmanýting á bráðamóttökunni var 154 prósent á síðasta ári og var innlagnarstig spítalans skilgreint á „ofurálagi“ allan síðari hluta ársins.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Landspítalans.
Í skýrslunni er meðal annars bent á ýmis vandamál er viðkoma mönnun á Landspítalanum. Ber þar hæst að nefna hve illa gengur að manna þau stöðugildi sem fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir.
50 stöðugildi hjúkrunarfræðinga, 14 stöðugildi ljósmæðra, 30 stöðugildi lækna og 379 stöðugildi sjúkraliða sem gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 voru ómönnuð.
Skortur á hjúkrunarfræðingum og læknum hefur haft neikvæð áhrif á afköst á spítalanum en jafnframt er talið mikið áhyggjuefni hve marga sjúkraliða skortir. Nýliðun þeirra hefur verið mun hægari en hjá bæði læknum og hjúkrunarfræðingum og meðalaldur stéttarinnar er mjög hár.
Ríkisendurskoðun telur að Landspítalinn sem og heilbrigðisráðuneytið þurfi að leita leiða til þess að tryggja mönnun spítalans til framtíðar, meðal annars með því að styðja við uppbyggingu sérnáms og þá sérstaklega þeirra greina sem mæðir mest á samhliða öldrun þjóðarinnar.
Þess má geta að framboð sérnáms hefur aukist verulega hérlendis og samhliða því hefur læknum sem stunda sérnám á Íslandi fjölgað síðastliðin ár.
Einnig er í skýrslunni bent á vandamál er snúa að flæði sjúklinga. Þau gæðaviðmið sem landlæknir styðst við miða við að ekki megi líða lengri tími en sex klukkustundir frá komu á bráðamóttöku til innlagnar. Árið 2024 náðist það markmið aðeins í 23 prósent tilfella og meðaltíminn var rúmur sólarhringur.
Staðan á bráðamóttökunni var þannig árið 2024, að 65 sjúklingar lágu að meðaltali inni í 42 rúmstæðum og var rúmanýtingin því 154 prósent.
Landspítalinn skilgreinir innlagnarstig spítalans eftir þremur stigum. Þriðja stiginu hefur verið lýst sem „ofurálagi“ en raunin var sú árið 2024 að Landspítalinn var á þriðja innlagnarstigi allan síðari hluta ársins.
Enn fremur segir í skýrslunni að einn stærsti áhrifaþátturinn í flæði sjúklinga sé sá fjöldi sem dvelur á sjúkrahúsinu í bið eftir því að fá vist á hjúkrunarheimili.
Frá 2020 hafa að meðaltali 80 slíkir sjúklingar legið inn á spítalanum sem gerir 12 prósent af heildarfjölda sjúklinga. Ríkisendurskoðun segir að í svörum vegna skýrslunnar hafi heilbrigðisráðuneytið sagst vonast til þess að hjúkrunarrýmum fjölgi verulega á næstu þremur árum. Ríkisendurskoðun segir töluverða óvissu um það hvort fyrirhuguð fjölgun komi til með að svara þörfinni sem sé til staðar.
Heilbrigðisráðuneytið lagði upp með það árið 2019 að fjöldi hjúkrunarrýma yrði orðinn 3.433 í lok árs 2024 og bið yrði ekki lengri en 90 dagar. Ríkisendurskoðun segir þetta ekki hafa staðist. Rými séu tæplega 470 færri en gert var ráð fyrir og meðalbiðtími sé 176 dagar. Um 500 einstaklingar eru nú á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum.