Andlát: Magnús Þór Hafsteinsson

Magnús Þór Hafsteinsson.
Magnús Þór Hafsteinsson.

Magnús Þór Hafsteinson fyrrverandi alþingismaður er látinn. Hann lést síðastliðinn mánudag, 30. júní, þegar strandveiðibátur hans, Ormurinn langi AK-64, fórst undir Blakknum við mynni Patreksfjarðar.

Magnús fæddist á Akranesi 29. maí 1964, sonur þeirra Hafsteins Magnússonar og Jóhönnu Kristínar Guðmundsdóttur. Magnús, sem var fráskilinn, lætur eftir sig fjórar dætur.

Sem ungur maður sinnti Magnús ýmsum verkamannastörfum til sjós og lands. Hann lauk námi sem búfræðingur með fiskeldi sem sérgrein frá Bændaskólanum á Hólum árið 1986. Hann fór svo síðar til Noregs og nam þar á háskólastigi, fyrst fiskeldis- og rekstrarfræði og seinna í fiskifræði í Bergen.

Magnús sinnti fyrr á árum ýmsum rannsóknarstörfum við sjávarútveg, bæði á Íslandi og í Noregi. Hann var blaðamaður hjá norska sjávarútvegsblaðinu Fiskaren. Einnig fréttamaður á Rúv í sjónvarpi og útvarpi 1997-2003. Var þá meðal umsjónarmanna Auðlindarinnar, fréttaþáttar um sjávarútvegsmál.

Magnús var þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi á árunum 2003-2007 og formaður þingflokks lengst af þeim tíma. Á Alþingi og í þjóðmálaumræðunni almennt lét Magnús mjög til sín taka í sjávarútvegsmálum, bæði í ræðu og riti.

Á síðari árum starfaði Magnús fyrir Flokks fólksins. Enn fremur var hann þýðandi fjölda bóka um söguleg efni, svo sem síðari heimsstyrjöldina og afmarkaða þætti hennar. Einnig má tiltaka þýðingar hans á bókum breska sagnfræðingsins Max Hastings. Fyrst var það bókin Vítislogar, sem fjallar um síðari heimsstyrjöldina, þá Kóreustríðið 1950-1953 og loks Kúbudeilan 1962.

Nýlega kom svo út á vegum Uglu útgáfu í þýðingu Magnúsar bókin Líf á jörðinni okkar – vitnisburður minn og framtíðarsýn, eftir breska sjónvarpsmanninn David Attenborough.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »