Röð út að dyrum á „nördaútsölu“

Útsala hófst í Nexus í dag.
Útsala hófst í Nexus í dag. Samsett mynd

„Þetta er svona nördaútsala,“ sagði einn þeirra sem var í langri röð í Glæsibæ í morgun. Blaðamaður hafði skotist út í búð til að kaupa mjólk í nærliggjandi verslun en gat ekki annað en orðið var við á annað hundrað manns sem biðu þolinmóðir eftir því að verslunin Nexus opnaði.

Verslunin átti að opna um 10 og enn var um klukkustund í að verslunin opnaði. Röðin lengdist á hverri mínútu.

Á annað hundrað manns voru komnir í röð um klukkustund …
Á annað hundrað manns voru komnir í röð um klukkustund áður en versluin opnaði. mbl.is/Viðar

Mætti klukkan 7

Sá sem var fremstur í röðinni var Egill Rúnar Heiðarsson, sem hafði mætt á svæðið klukkan 7 í morgun. Um tíu mínútum síðar komu svo þau Pedro Jordan og Ignacia Berazza og fengu sér sæti í tröppum við inngang verslunarinnar.

Ignacia er frá Síle en Pedro frá Portúgal. Þau búa á Íslandi og segjast koma á hverju ári á útsöluna.

„Ég er hér til að kaupa Star Wars-hluti og myndasögubækur,“ segir Ignacia.

„Ég er hér til að kaupa dótakarla, tölvuleiki og Pókemon-spjöld. Eiginlega alls konar nördahluti,“ segir Pedro.

Spurð segja þau að það komi alls ekki á óvart hve margir séu komnir til að bíða í röðinni. „Þetta er svona á hverju ári,“ segja þau einum rómi.“

Egill sem er hér lengst til vinstri var mættur klukkan …
Egill sem er hér lengst til vinstri var mættur klukkan 7 í morgun. Við hlið hans eru þau Pedro og Ignacia. mbl.is/Viðar

Alltaf gaman að sjá hvaða bitar eru í boði

Skammt fyrir ofan þau í tröppunum sat Grétar Mar Sigurðsson í mestu makindum. Hafði hann

Grétar Mar beið spenntur eftir því að sjá hvaða bitar …
Grétar Mar beið spenntur eftir því að sjá hvaða bitar væru í boði. mbl.is/Viðar

setið þar í hálfa aðra klukkustund og kom klukkan hálf átta í morgun.

„Ég er á höttunum eftir einhverju sem tengist spunaspilum. Kannski reyna að finna einhverjar fígúrur og bækur,“ segir Grétar.

Hann segist mæta reglulega á útsölu hjá Nexus. „Það er alltaf gaman að sjá hvaða bitar eru í boði. Þess vegna er mikilvægt að mæta snemma. Ég mætti hálf átta en ég held ég hafi aldrei mætt svona snemma,“ segir Grétar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »