Alþingi samþykkti í gær lög um fæðingarorlof en þrátt fyrir mikla samstöðu um efni málsins meðal flokka á þingi var verulegur ágreiningur um afgreiðslu þess milli ríkisstjórnarflokka og stjórnarandstöðu.
Fór svo að stjórnarmeirihlutinn felldi breytingartillögu frá tveimur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, þó að hún væri í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar.
Segja má að það segi sína sögu og vel það um samstarfsandann á þingi að jafnvel um ágreiningslaust mál geti andstæðar fylkingar stjórnar og stjórnarandstöðu gert ágreining úr. Atkvæðagreiðslan um málið stóð yfir í klukkustund.
Almenn samstaða var um efni frumvarpsins, en það snerist að mestu leyti um að bæta hag fjölburaforeldra og þeirra sem veikjast á meðgöngu eða í kjölfar fæðingar.
Stjórnarandstæðingum þótti hins vegar vanta í frumvarpið að það tæki til allra foreldra sem ættu rétt rétt á fæðingarorlofsgreiðslum á árinu eftir að lögin taka gildi, óháð því hvenær barnið kom í heiminn, en eins að þakið á greiðslum til þeirra yrði hækkað til samræmis við yfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga við gerð kjarasamninga.
Um hvort tveggja ríkti samstaða þvert á flokka á síðasta þingi og var ekki annað að sjá en að svo væri einnig nú. Kveðið var á um þetta í stjórnarsáttmálanum frá desember sl. og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra vék sérstaklega að þessu í stefnuræðu sinni 10. febrúar:
„Fyrstu breytingar nýrrar ríkisstjórnar á fæðingarorlofskerfinu munu sömuleiðis skipta sköpum fyrir marga – með frumvarpi í mars til að bæta hag fjölburaforeldra, lengja fæðingarorlof foreldra sem veikjast á meðgöngu eða eftir fæðingu og tryggja að hærri greiðslur gangi til allra foreldra sem eru í orlofi, óháð fæðingardegi barns.“
Inga Sæland félagsmálaráðherra virðist hins vegar ekki hafa lagt sömu áherslu á það, a.m.k. var ekki á um þetta kveðið í frumvarpinu eins og hún lagði það fram um síðari hluta mars.
Þegar við 1. umræðu málsins lögðu Diljá Mist Einarsdóttir og Bryndís Haraldsdóttir í Sjálfstæðisflokki því fram breytingartillögu þar að lútandi, en á henni reyndist vera formgalli, svo að hún var lögð lagfærð fram á ný.
Stjórnarmeirihlutinn var hins vegar ekki á sama máli, hugsanlega vegna þess að hann vildi ekki eftirláta minnihlutanum að laga málið. Það gáfu sumir stjórnarandstæðingar til kynna í umræðum um atkvæðagreiðsluna en hins vegar sagði Guðmundur Ari Sigurjónsson þingflokksformaður Samfylkingar það stjórnarliðum að meinalausu. Reynt hefði verið að ná saman um lausn málsins en stjórnarandstaðan slegið á þá sáttahönd.
Morgunblaðið hafði raunar heimildir fyrir því um helgina að slíkt samkomulag hefði tekist, en svo virðist það hafa trosnað upp.
Hugsanlega tengist það samningum um þinglok um liðna helgi, því Guðmundur Ari sagði einnig í umræðunni í gær að vel mætti leysa málið og hafa það „sem hluta af þinglokasamtali“.
Bergþór Ólason þingflokksformaður Miðflokks henti það á lofti og beindi því til forseta að hann gerði stutt hlé á fundi til þess að menn gætu samið um það í hvelli, lítið bæri ljóslega á milli.
Það hlé kom hins vegar ekki og áður en yfir lauk var breytingartillagan felld og frumvarp félagsmálaráðherra afgreitt óbreytt en án gefinna fyrirheita úr stjórnarsáttmála og stefnuræðu.
Og áfram hélt umræðan á Alþingi, sleitulaust inn í nóttina, sem um leið þýðir að engir frekari fundir þingflokksformanna um þinglok hafa átt sér stað. Erfitt er að trúa því að urgur vegna fæðingarorlofsins valdi því, því á sunnudag virtust bæði stjórnarlið og stjórnarandstaða vongóð um að um semdist. En síðan gerðist eitthvað.
Fæðingarorlofsmál
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.