Börn fremja fleiri ofbeldisbrot en nokkru sinni

Fleiri stúlkur og yngri börn eru nú grunuð um ofbeldisbrot.
Fleiri stúlkur og yngri börn eru nú grunuð um ofbeldisbrot. Ljósmynd/Colourbox

Fjöldi barna sem grunuð eru um ofbeldisbrot er nú hærri en nokkru sinni sé litið til síðustu 15 ára, en ítrekunartíðni hefur tvöfaldast frá 2007, samkvæmt gögnum lögreglu.

Þá sýna gögn lögreglu og barnaverndarþjónustu fjölgun tilkynninga og hærri endurkomutíðni og að fleiri stúlkur og yngri börn koma við sögu í ofbeldisbrotum en áður. Slíkt hefur leitt til mikils álags á barnaverndarkerfi þar sem sértæk úrræði og samhæfing kerfa hafa ekki haldið í við þessa þróun.  

Hlutfall barna með erlendan bakgrunn sem grunuð eru um ofbeldisbrot hefur einnig hækkað. Eru þau líklegri til að koma við sögu í slagsmálum og upplifa sig síður örugg í nærumhverfinu en jafnaldrar með íslenskan bakgrunn. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í stöðutöku áætlunar fyrir aðgerðir vegna ofbeldis meðal barna og gegn börnum.

Skortur á samræmdu verkalagi og úrræðum

Stöðutakan leiðir meðal annars í ljós að núverandi úrræði ná ekki nægjanlega til barna með flókinn vanda eða að íhlutun komi of seint, skort á samræmdu verklagi þegar börn brjóta af sér, sem dregur úr skilvirkni kerfa og leiðir til misræmis í viðbrögðum. Einnig er ósamræmi í skráningu og gagnaöflun á milli stofnana og gögn skortir, einkum frá heilbrigðis-  og félagskerfi til að meta þróun mála og áhrif inngripa.

Líkt og greint hefur verið frá fjölgar tilkynningum til barnaverndarþjónustu á milli ára, einkum vegna áhættuhegðunar barna. Þar fjölgar mest tilkynningum vegna vímuefnaneyslu og ofbeldishegðunar. 

Endurteknum tilkynningum um sömu börn eða tilkynningum um sömu börn frá mismunandi aðilum er að fjölga og er það mat skýrsluhöfunda að það geti bent til þess að ekki sé verið að grípa nægjanlega snemma eða ákveðið inn í mál þessara barna.

Líklegri til að lenda í slagsmálum

Gögn lögreglu sýna að fjöldi barna sem grunuð eru um ofbeldisbrot er nú hærri en nokkru sinni og hefur ítrekunartíðni tvöfaldast frá árinu 2007. Hluti barnanna kemur þannig oft við sögu í alvarlegum brotum, sem bendir til að sértæk íhlutun gagnvart þessum hópi geti skilað mestum árangri, að mati skýrsluhöfunda. Á sama tíma kemur sífellt stærri hópur yngri barna við sögu og kynjahlutföll og samfélagslegur bakgrunnur barna sem tengjast þessum brotum er að breytast.

Tekin voru saman gögn um börn á aldrinum 10 til 17 ára sem skráð voru í málaskrá lögreglu vegna ofbeldisbrota; manndráp og líkamsmeiðingar í júní 2025. Árin 2024 og 2023 voru skráð 213 slík brot hvort ár, sem jafngildir 5,5 brotum og 5,6 brotum á hverja 10 þúsund íbúa í aldurshópnum.

Hlutfall barna með erlendan bakgrunn grunuð um ofbeldisbrot hefur hækkað og mældist 19 prósent árið 2024, samanborið við lægra hlutfall á fyrri árum. Slíkt endurspeglar breytta samsetningu þjóðarinnar, samkvæmt skýrslunni. Þó er bent á að samhliða sýni niðurstöður íslensku æskulýðsrannsóknarinnar að þessi börn eru líklegri til að koma við sögu í slagsmálum og upplifa sig síður örugg í nærumhverfinu en jafnaldrar með íslenskan bakgrunn. 

32 börn bíða eftir fóstri

Í skýrslunni segir að ný stöðutaka sýni nauðsyn áframhaldandi markvissra aðgerða til að mæta þörfum barna í mestum vanda.

Fram kemur að alls séu nú 23 börn á bið eftir MST-meðferð, 24 börn bíða eftir þjónustu í Barnahúsi vegna alvarlegra mála og 32 börn bíða eftir fóstri. 

„Til þess að stuðla að varanlegum árangri þarf að halda áfram markvissri innleiðingu sértækra úrræða til að stytta biðlista, efla skráningu og samræmingu gagna og þróa áfram þverfaglegt svæðisbundið samstarf. Aðgerðirnar verða að ná bæði til barna sem verða fyrir ofbeldi og til þeirra sem beita því,“ segir á tilkynningu á vef stjórnarráðsins þar sem birtist með skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »