Mest ánægja er með störf Samfylkingarinnar og Viðreisnar á þingvetrinum sem senn líður undir lok. Meirihluti aðspurðra segir alla aðra flokka á þingi hafa staðið sig illa og er ánægjan minnst með stjórnarandstöðuna.
Þetta kemur fram í könnun Maskínu sem lögð var fyrir 20. til 24. júní síðastliðinn þar sem spurt var hversu vel eða illa fólki fyndist þeir flokkar sem sitja á þingi hafa staðið sig á þingvetrinum.
Áberandi er að ánægjan er mest með störf Samfylkingarinnar og Viðreisnar en 47 prósent segja Samfylkinguna hafa staðið sig vel og 43 prósent að Viðreisn hafi staðið sig vel.
Ánægja með þriðja flokkinn í ríkisstjórnarsamstarfinu, Flokk fólksins, er síður en svo sambærileg en 18 prósent segja flokkinn hafa staðið sig vel. Flokkurinn hefur átt erfitt uppdráttar á kjörtímabilinu vegna ýmissa hneykslismála.
Stjórnarandstöðuflokkarnir koma ekki vel út könnun Maskínu en rúmlega sextíu prósent aðspurðra segja flokkana þrjá hafa staðið sig illa.
Minnst ánægja er með störf Framsóknarflokksins en aðeins níu prósent segja flokkinn hafa staðið sig vel. Ánægja með störf hinna stjórnarandstöðu flokkanna tveggja er örlítið meiri. 15 prósent segja Sjálfstæðisflokkinn hafa staðið sig vel og 17 prósent að Miðflokkurinn hafi staðið sig.
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa gagnrýnt meint málþóf stjórnarandstöðunnar í umræðu um veiðigjöld og bókun 35.
Þegar skoðað er hvaða flokka aðspurðir myndu kjósa ef gengið yrði til Alþingiskosninga í dag blasir við athyglisverð staða.
Kjósendur Samfylkingar og Viðreisnar virðast yfir sig sáttir með störf flokkanna beggja. 66,5 prósent kjósenda Viðreisnar segja til að mynda að Samfylkingin hafi staðið sig vel og 78,6 prósent kjósenda Samfylkingar segja slíkt hið sama um störf Viðreisnar.
Kjósendur flokkanna tveggja eru hinsvegar ekki sáttir við störf Flokks fólksins. Aðeins fjórðungur kjósenda Samfylkingar segja flokkinn hafa staðið sig vel og tæpur fimmtungur kjósenda Viðreisnar.