Strandveiðibátur sökk úti fyrir Patreksfirði

Þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Þorgeir

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Vestfjörðum voru kallaðar út á tólfta tímanum í dag eftir að strandveiðibátur sökk úti fyrir Patreksfirði.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að skipstjóri fiskibáts sem var staddur í grenndinni hafi haft samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og tilkynnt að báturinn væri sokkinn og einn maður væri í sjónum.

Þyrla Landhelgisgæslunnar og áhöfnin á björgunarskipinu Verði voru kallaðar út í mesta forgangi. Þá voru öll skip á svæðinu beðin að halda á staðinn. Áhöfnin á björgunarskipinu var fyrst viðbragðsaðila á vettvang og náði manninum úr sjónum. Hann var fluttur með björgunarskipinu til Patreksfjarðar.

Rannsókn málsins er í höndum lögreglunnar á Vestfjörðum og rannsóknarnefndar samgönguslysa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »