Mennta- og barnamálaráðuneytið hafði enga aðkomu að þeirri ákvörðun Reykjavíkurborgar um að loka starfsstöð Brúarskóla við Dalbraut, sem sinnt hefur börnum og ungmennum á barna- og unglingageðdeild Landspítalans.
Fundað hafði verið um stöðu nemenda á framhaldsskólaaldri á BUGL, en fara átti betur yfir málið að loknu sumarleyfi.
Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.
Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að starfsstöð Brúarskóla á BUGL hefði verið lokað og að tveimur starfsmönnum hefði verið sagt upp. Í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn mbl.is er þó áréttað að ekki komi til uppsagna starfsmanna vegna breytinganna. Stangast það á við áreiðanlegar heimildir mbl.is um að starfsmönnunum hafi þegar verið sagt upp.
Hluti barnanna sem dvelur á BUGL er á framhaldsskólaaldri og Reykjavíkurborg hefur einnig sinnt þeim, þrátt fyrir að framhaldsskólastigið heyri undir ríkið.
Í svari ráðuneytisins segir að Reykjavíkurborg hafi óskað eftir fundi vegna kostnaðar við kennslu nemenda á framhaldsskólaaldri, meðal annars á BUGL.
Fundurinn var haldinn 23. júní síðastliðinn þar sem farið var yfir málin, eins og það er orðað í svarinu.
Var sú ákvörðun tekin að afla frekari gagna, hittast á ný eftir sumarleyfi og leggja línur fyrir framhaldið vegna nemenda á framhaldsskólaaldri.
„Ákvarðanir Reykjavíkurborgar um fyrirkomulag við starfsstöðvar sínar voru ekki teknar með aðkomu ráðuneytisins.“
Borgin gerði úttekt á Brúarskóla árið 2023 og voru ráðgjafar fyrirtækisins KPMG sendir til að kanna aðstæður og ræða við kennara. Úttektin var ekki gerð í samráði við BUGL eða Landspítalann.
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Helga Þórðardóttir, formaður skóla- og frístundaráðs, kannist ekki við málið. Það hafi ekki verið rætt á fundum ráðsins.
Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, einn af upplýsingafulltrúum borgarinnar, sagði í samtali við Morgunblaðið að breytingarnar myndu ekki leiða til þjónusturofs.
„Það er ekkert þjónusturof við börn sem eru reykvísk. Öllum börnum verður áfram sinnt. Við höfum verið að sinna börnum frá öðrum sveitarfélögum, mörg þeirra eru á framhaldsskólastigi. Það er þá ekki okkar verkefni heldur ríkisins. Áfram verður öllum reykvískum börnum sinnt eftir því hvað hentar þeim,“ sagði Eva Bergþóra.
Ekki hafa fengist upplýsingar um það hvernig fyrirkomulagi skólaþjónustu á BUGL verður háttað eftir þessar breytingar, en ítrekað að börn á grunnskólaaldri muni fá þjónustu eftir þörfum.
Hvorki Steinn Jóhannsson, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, né Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri vildu tjá sig um málið við Morgunblaðið í gær, en ekkert hefur náðst í þau í dag.