Ríkið ekki haft með í ráðum við lokunina

Ekki hafa fengist upplýsingar um hvernig skólaþjónustu verður háttað á …
Ekki hafa fengist upplýsingar um hvernig skólaþjónustu verður háttað á BUGL. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mennta- og barnamálaráðuneytið hafði enga aðkomu að þeirri ákvörðun Reykjavíkurborgar um að loka starfsstöð Brúarskóla við Dalbraut, sem sinnt hefur börnum og ungmennum á barna- og unglingageðdeild Landspítalans. 

Fundað hafði verið um stöðu nemenda á framhaldsskólaaldri á BUGL, en fara átti betur yfir málið að loknu sumarleyfi.

Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að starfsstöð Brúarskóla á BUGL hefði verið lokað og að tveimur starfsmönnum hefði verið sagt upp. Í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn mbl.is er þó áréttað að ekki komi til uppsagna starfsmanna vegna breytinganna. Stangast það á við áreiðanlegar heimildir mbl.is um að starfsmönnunum hafi þegar verið sagt upp.

Afla átti frekari gagna

Hluti barnanna sem dvelur á BUGL er á framhaldsskólaaldri og Reykjavíkurborg hefur einnig sinnt þeim, þrátt fyrir að framhaldsskólastigið heyri undir ríkið. 

Í svari ráðuneytisins segir að Reykjavíkurborg hafi óskað eftir fundi vegna kostnaðar við kennslu nemenda á framhaldsskólaaldri, meðal annars á BUGL.

Fundurinn var haldinn 23. júní síðastliðinn þar sem farið var yfir málin, eins og það er orðað í svarinu.

Var sú ákvörðun tekin að afla frekari gagna, hittast á ný eftir sumarleyfi og leggja línur fyrir framhaldið vegna nemenda á framhaldsskólaaldri.

„Ákvarðanir Reykjavíkurborgar um fyrirkomulag við starfsstöðvar sínar voru ekki teknar með aðkomu ráðuneytisins.“

Fullyrða að ekki verði rof á þjónustu

Borg­in gerði út­tekt á Brú­ar­skóla árið 2023 og voru ráðgjaf­ar fyr­ir­tæk­is­ins KPMG send­ir til að kanna aðstæður og ræða við kenn­ara. Úttekt­in var ekki gerð í sam­ráði við BUGL eða Land­spít­al­ann. 

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Helga Þórðardóttir, formaður skóla- og frístundaráðs, kannist ekki við málið. Það hafi ekki verið rætt á fundum ráðsins.

Eva Bergþóra Guðbergs­dótt­ir, einn af upp­lýs­inga­full­trú­um borg­ar­inn­ar, sagði í samtali við Morgunblaðið að breyt­ing­arn­ar myndu ekki leiða til þjón­usturofs.

„Það er ekk­ert þjón­usturof við börn sem eru reyk­vísk. Öllum börn­um verður áfram sinnt. Við höf­um verið að sinna börn­um frá öðrum sveit­ar­fé­lög­um, mörg þeirra eru á fram­halds­skóla­stigi. Það er þá ekki okk­ar verk­efni held­ur rík­is­ins. Áfram verður öll­um reyk­vísk­um börn­um sinnt eft­ir því hvað hent­ar þeim,“ sagði Eva Bergþóra. 

Ekki hafa fengist upplýsingar um það hvernig fyrirkomulagi skólaþjónustu á BUGL verður háttað eftir þessar breytingar, en ítrekað að börn á grunnskólaaldri muni fá þjónustu eftir þörfum.

Hvorki Steinn Jóhannsson, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, né Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri vildu tjá sig um málið við Morgunblaðið í gær, en ekkert hefur náðst í þau í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »