Lækkun á olíuverði ekki skilað sér til neytenda

Lækkunin hefur ekki komið fram hérlendis.
Lækkunin hefur ekki komið fram hérlendis. mbl.is/Sigurður Bogi

Lækkun á heimsmarkaðsverði olíu hefur ekki komið fram í íslensku eldsneytisverði, samkvæmt útreikningum ASÍ.

Fram kemur í tilkynningu að þróun á erlendum mörkuðum hafi á heildina litið verið íslenskum olíumarkaði hagfelld. Heimsmarkaðsverð olíu hafi leitað niður á við á árinu.

„Snörp hækkun, sem rekja mátti til átaka í Vestur-Asíu hefur að mestu gengið til baka eftir undirritun samkomulags um vopnahlé. Gengi íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadollar hefur einnig styrkst. Alls hefur olíutunnan lækkað um 10% frá áramótum, mælt í krónum,” segir í tilkynningunni.

Aðeins lækkað um rúm 2%

Þrátt fyrir þetta hefur lækkun heimsmarkaðsverðs ekki komið fram á Íslandi og í raun hefur dagsmeðaltal verðs á 95 oktana bensíni aðeins lækkað um rúm 2% frá upphafi árs. Á sama tíma hefur mældur meðalbrúttóhagnaður af seldum bensínlítrum hækkað um tæp þrjú prósentustig frá síðasta ári og það sem af er þessu ári, eða úr 22,72% í 25,58%.

Bensínverð er sem fyrr lægst í Costco í Garðabæ.
Bensínverð er sem fyrr lægst í Costco í Garðabæ. Ljósmynd/Colourbox

Ódýrast hjá Costco 

Sem fyrr er lægsta lítraverðið á bensíni hjá Costco í Garðabæ. Meðalverðið er að jafnaði næstlægst hjá Atlantsolíu.

Sérstakir afsláttardagar stóðu yfir um miðjan apríl hjá Atlantsolíu. Þá munaði aðeins rúmum 17 krónum á útsöluverði þeirra og Costco, að því er segir í tilkynningunni.

„Dagsmeðaltöl bensínverðs segja þó bara hálfa söguna. Breytileiki á verðum getur verið mjög mikill milli ólíkra smásala en einnig innan hjá sömu smásölum.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »