„Þetta fer ekki gæfulega af stað hjá nýjum meirihluta. Borgin skilar 5,4 milljarða króna tapi á fyrsta ársfjórðungi þrátt fyrir að útsvarstekjur fari tvo milljarða umfram áætlanir. Áfram ætlar meirihlutinn svo að skattleggja borgarbúa upp í rjáfur,“ segir Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, við Morgunblaðið.
Viðbragða hennar var leitað við nýbirtu árshlutauppgjöri Reykjavíkurborgar þar sem fram kemur að tap af rekstri borgarinnar var á sjötta milljarð, þrátt fyrir að tekjur borgarinnar af útsvari borgarbúa hefðu verið verulega umfram áætlanir á sama tímabili.
Hildur gagnrýnir harðlega stjórnsýslu borgarinnar og segir þar engan áhuga á að bæta reksturinn. Hún bendir á að tillaga sjálfstæðismanna um frystingu fasteignaskatta um næstu áramót hafi verið felld í borgarstjórn sl. þriðjudag.
„Það var kannski ekki við öðru að búast frá fimm flokka vinstrinu sem telur sig eiga rétt á sífellt fleiri krónum frá heimilunum í borginni og bruðlar svo með þær eins og dæmin sanna. Nú verður einhver að stíga á bremsuna og halda utan um þennan borgarrekstur eins og ráðdeildarsöm húsfrú. Ef vel er haldið á málum er nefnilega hægt að skapa ágætis svigrúm til skattalækkana í Reykjavík,“ segir Hildur.
Í bókun sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram af þessu tilefni eru ítrekaðar áhyggjur af óráðsíu í rekstri Reykjavíkurborgar. Bent er á að skattheimta af fólki og fyrirtækjum hafi hækkað gríðarlega síðastliðinn áratug m.v. fast verðlag og útgjöldin blásið út. Fyrirliggjandi árshlutauppgjör sýni að grunnrekstur borgarinnar hafi verið neikvæður um 592 milljónir, sem sé tæplega 2,2 milljörðum lakari niðurstaða en á sama tímabili í fyrra, jafnvel þótt útsvarstekjur hafi verið 2 milljörðum yfir áætlun. Þá hafi EBITDA verið um 1,2 milljörðum lægri en ráð var fyrir gert.
„Kaldhæðnin er ekki síst sú að aðeins örfáar vikur eru liðnar síðan við afgreiddum ársreikning borgarinnar. Þar steig fram hver borgarfulltrúi meirihlutans á fætur öðrum og fullyrti að rekstrinum hefði verið snúið til betri vegar. Við sjáum nú að reksturinn skilar fimm og hálfs milljarðs tapi og er niðurstaðan mun verri en gert hafði verið ráð fyrir, þrátt fyrir að útsvarstekjur fari tvo milljarða fram úr áætlun. Við höfum alltaf sagt að vandi borgarinnar sé ekki tekjuvandi. Tekjurnar streyma inn. Vandinn er útgjaldavandi og það hefur algerlega mistekist að ná stjórn á útgjaldavextinum í borginni, en þar liggja tækifærin,“ segir Hildur.
„Þetta er augljóslega stjórnunarvandi og algjört áhugaleysi á að taka til í rekstrinum. Það má vel leita leiða til að draga saman seglin og skapa svigrúm til að lækka skatta. Það er það sem við sjálfstæðismenn viljum gera og sjáum mörg tækifæri til þess,“ segir hún.
Hildur segir fjölmörg tækifæri til sparnaðar. Draga megi saman og útvista verkefnum stafrænnar umbreytingar, leggja megi niður mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu borgarinnar sem kosti nokkur hundruð milljónir á ári. Stjórnkerfi borgarinnar þurfi einnig að skera niður, minnka yfirbyggingu og fækka verkefnum. Mikill vöxtur hafi átt sér stað í miðlægri stjórnsýslu borgarinnar síðustu árin.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.