Nadía Hjálmarsdóttir var meðal þeirra nemenda sem útskrifuðust úr leikhússkóla Þjóðleikhússins fyrr í mánuðinum, en nemendahópurinn var fyrsti bekkur og útskriftarhópur skólans sem stofnaður var árið 2024.
„Leikhússkólinn býður upp á eins árs leikhúsmenntun fyrir ungt fólk sem snýr aðallega að því sem gerist á bak við tjöldin í leikhúsinu og hvernig við búum til leikhús,“ segir Nadía. „Við fengum tækifæri til að læra inn á leikstjórn, skrif, sýningarstjórnun, ljósa-, hljóð-, búninga- og leikmyndahönnun og leiklist.“
Nadía segir hópinn hafa fengið grunn á öllum þessum sviðum en þegar leið á skólaárið hafi nemendur getað sérsniðið námið frekar að sínu áhugasviði. „Þetta hentar í rauninni fólki sem kemur inn í skólann vitandi hvað það vill gera innan leikhússins en líka því sem veit bara að það hefur áhuga á einhverju sem tengist gerð leiksýninga.“
Nadía segir nemendur hafa fengið mikið rými til að prófa sig áfram með verkefnavinnu en í lok vetrarins var myndaður einn stór leikhópur og búin til fjögur örverk frá grunni sem sýnd voru á útskriftarsýningu á Litla sviði Þjóðleikhússins.
Spurð hvers vegna hún ákvað að sækja um í skólanum segist Nadía hafa verið mikið að stússast í leikhúslífi í menntaskóla, en hún var m.a. formaður Listanefndar Versló sem setur upp leiksýningu ár hvert og hluti af danshópi í leikritum Nemendamótsnefndar, Nemó, tvö ár í röð. „Ég datt svona inn á þetta þar og nýtti tímann í menntaskóla í að prófa að búa til sýningar en þegar ég útskrifaðist hélt ég að sá kafli væri dálítið búinn. Maður horfir á atvinnuleikhúsin og hugsar að það sé ekkert pláss fyrir mann þarna. Ég fattaði í raun ekkert að það væru til stöður í þessum stóru leikhúsum sem snúa að því sem mig langaði að gera,“ segir Nadía.
„Síðan sá ég allt í einu leikhússkólann auglýstan á netinu og heyrði af því að einhverjir vinir mínir væru að fara að sækja um. Þá ákvað ég bara að prófa að sækja um og bjóst ekkert endilega við því að komast inn.“
Nadía segir frá umsóknarferlinu, en það hófst með því að umsækjendur fengu sent verkefni til að leysa.
„Í okkar tilfelli fengum við handrit og áttum að greina verkið. Við fengum að ákveða hvers konar konsept við bjuggum til í kringum það, hvort sem það var leikmynda- og búningakonsept, ljósa- og hljóðkonsept eða dýpri persónusköpun og svo framvegis.“
Hún segir að þarna hafi þau strax fengið að sýna styrkleika sína. „Með verkefninu skilaði maður líka ferilskrá eða portfolio og svo var hluta hópsins boðið í prufur. Þá bjuggum við til örverk í litlum hópum og það var fylgst með því hvernig maður vann í hópi. Síðan var valið í 19 manna bekk.“
Bekkurinn mætti í skólann tvö kvöld í viku frá september fram í miðjan maí en í lok skólaársins var þriggja vikna æfingaferli áður en nemendurnir sýndu örverkin sín á Litla sviðinu.
„Okkur bauðst líka að taka þátt í alls konar öðru ofan á þetta, til dæmis að hoppa inn á æfingar á verkum sem verið er að sýna í Þjóðleikhúsinu og skoða ýmsar deildir leikhússins.“
Í náminu lagði Nadía mikla áherslu á sýningarstjórnun, sem snýr að skipulagi og verkstjórnun leiksýninga, en í lok skólaársins stýrði hún ásamt öðrum sýningarstjóra tveimur af verkunum fjórum sem nemendurnir bjuggu til.
Vala Fannell er skólastjóri leikhússkólans og heldur utan um námið en ásamt henni koma aðrir listamenn og tæknifólk úr Þjóðleikhúsinu að kennslunni. Vala hefur mikla reynslu af listkennslu og byggði m.a. upp nýja sviðslistabraut í Menntaskólanum á Akureyri.
„Í grunninn var það Vala sem hélt utan um okkur og sá um að leiða okkur sem hóp en við fengum líka fyrirlestra frá fólki sem vinnur í leikhúsinu. Það kom úr mismunandi deildum leikhússins og fjallaði um sín svið. Þetta voru meðal annars Ilmur Stefánsdóttir sem kenndi leikmyndahönnun, Filippía Elíasdóttir sem kenndi búningahönnun, Björn Bergsteinn Guðmundsson ljósahönnun, Brett Smith hljóðhönnun, Elísa Sif Hermannsdóttir sýningarstjórnun og Matthías Tryggvi Haraldsson handritaskrif. Svo fengum við kennslu í leiklistarsögu frá Melkorku Teklu Ólafsdóttur dramatúrg og Sveini Einarsson fyrrverandi Þjóðleikhússtjóra. Þau eiga það öll sameiginlegt að vera algjörir reynsluboltar í þessu,“ segir Nadía.
Nadía segir námið vera gott til að brúa bilið á milli menntaskóla og háskóla. „Þá er hægt að fá meiri reynslu, búa til ferilskrá og prófa sig áfram. Til að mynda fengu þó nokkur bekkjarsystkini mín inngöngu í Listaháskólann núna í haust.“
Nadía segir að sér hafi fundist það skemmtilegasta við námið að fá að kynnast bekknum vel og mynda gott tengslanet með ungu fólki með sama áhugasvið. Hún segir gott að fá að vinna með öðru fólki og læra að vinna sem hópur. „Það er mjög gaman að hugsa til þess að seinna meir munum við vonandi geta mætt hvert öðru í atvinnuleikhúsunum og skapað eitthvað enn stærra saman.“
Nadía mælir mikið með náminu og segir það gott tækifæri til að prófa sig áfram. „Ég held að hingað til hafi ekki verið neitt svona í boði fyrir þennan aldurshóp. Það er fullt af leiklistarnámskeiðum sem hægt er að fara á en mjög lítið framboð af einhverju eins og þessu,“ segir Nadía. „Þó að ég hafi vitað hvað mig langaði að gera áður en ég byrjaði í þessu er samt svo mikilvægt að fá að prófa sig áfram og fá rými til að gera mistök í öruggu umhverfi undir handleiðslu fagfólks.“
Nadía var að klára fyrsta ár sitt í skapandi greinum í Háskólanum á Bifröst, en hún stundaði fjarnám samhliða leikhússkólanum. Nadía segir haustið vera óskrifað blað en vonar að hún fái tækifæri til þess að koma að gerð leiksýninga samhliða náminu.
Spurð hvað hún taki með sér út í lífið eftir árið í leikhússkólanum segist Nadía hafa fengið sjálfstæða hugmynd um leikhúsið og hvað það er. Henni fannst gaman að heyra hvernig fólk á mismunandi sviðum innan leikhússins talaði um það á mismunandi hátt og tók það til sín.
„Það var gott að fá að verja árinu í að reyna að átta sig á því hvað leikhús er og af hverju mann langar að gera eitthvað sem tengist því. Það var ekkert endilega skýrt fyrir mér áður en ég byrjaði og ég held að það gildi líka um marga samnemendur mína.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.