Ríkisstjórnin meðvituð um vandamálin

Daði Már flutti ávarp á blaðamannafundinum þar sem skýrslan var …
Daði Már flutti ávarp á blaðamannafundinum þar sem skýrslan var kynnt. mbl.is/Eyþór

OECD metur stöðu Íslands sem góða og bjartsýni er um hagþróun. Þau atriði sem bent er á að megi bæta eru sömu atriði og ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að bæta.

Þetta segir Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is um nýja skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um stöðu Íslands sem var kynnt á blaðamannafundi í ráðuneyti Daða fyrr í dag.

Hér er Daði Már ásamt Mathias Cormann, framkvæmdastjóra OECD, sem …
Hér er Daði Már ásamt Mathias Cormann, framkvæmdastjóra OECD, sem kynnti skýrsluna. Eythor Arnason

Áhyggjur af menntakerfinu

„Vandamálin sem við stöndum frammi fyrir í raforkumálum er eitthvað sem við í ríkisstjórninni vitum mjög vel af. Eins hefur staða menntamála verið mikið áhyggjuefni, við höfum áhyggjur af því hvernig staða íslenskra nemenda hefur komið út í samanburðarrannsóknum,“ segir Daði.

Samkvæmt skýrslu OECD er munur í námsárangri milli kynjanna meiri hérlendis en í öðrum ríkjum OECD. Daði segir að það sé áhersla ríkisstjórnarinnar að fleiri fái meira út úr menntakerfinu en þeir gera í dag.

Bent er á það í skýrslunni að menntakerfi Íslands líði fyrir það að ekki sé hér samræmt námsmat til þess að meta árangur einstakra grunnskóla. Innleiðing matsferils stendur til sem er ætlað að bæta stöðuna sem uppi er.

„Matsferillinn hjálpar okkur fyrst og fremst í því að sjá hvar vandamálin eru mest á milli skóla. Það er hluti af því sem við þurfum að takast á við en við þurfum líka að takast á við almenna þróun í menntakerfinu, ábendingin um skort á samræmdu námsmati er mjög góð,“ segir Daði aðspurður um stöðu mála. 

Ráðherra stigið stór skref

Skýrsla OECD sýnir dökka mynd þegar kemur að raforkumálum. Skýrslan hvetur til þess að regluverki verði breytt og að leyfisveitingakerfið verði gert einfaldara og fyrirsjáanlegra. 

„Jóhann Páll Jóhannsson hefur í ráðuneyti sínu verið að stíga mjög stór skref. Hann er að koma verkefnum sem hafa verið stopp í framkvæmd en einnig hefur hann verið að einfalda regluverk. Það er líka mjög mikilvægt eins og kom fram í skýrslunni að við höldum áfram að fjárfesta í flutningskerfinu okkar,“ segir Daði að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »