Lægð suður af landinu

Úrkomuspá Veðurstofunnar klukkan 9.
Úrkomuspá Veðurstofunnar klukkan 9. Kort/Veðurstofa Íslands

Lægð suður af landinu stýrir veðrinu um þessar mundir, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Veldur hún austanátt í dag og verður ýmist gola eða kaldi en strekkingur syðst fram yfir hádegi.

Lægðin mun senda úrkomusvæði til norðurs. Búast má við rigningu eða súld en þurrt að mestu á Norðurlandi þangað til síðdegis. 

Hiti verður á bilinu 7 til 15 stig, hlýjast á Norðurlandi.

Úrkomusamt við lægðarmiðjur

„Á morgun nálgast lægðin og gera spár ráð fyrir að stóran hluta dagsins verði lægðarmiðjan yfir Suður- og Vesturlandi og því fremur hægur vindur á þeim slóðum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Annars staðar má gera ráð fyrir suðaustan og austan 5-13 m/s.

„Það er yfirleitt úrkomusamt við lægðarmiðjur og því má búast við rigningu eða skúrum víðast hvar á landinu á morgun og sums staðar líkur á talsverðum dembum síðdegis.“

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »