Páll Steingrímsson, fyrrverandi skipstjóri hjá Samherja, hefur höfðað mál gegn Ríkisútvarpinu ohf. fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og krefst 4 milljóna króna í miskabætur út af byrlunarmálinu svokallaða.
Málið tengist meintu broti gegn friðhelgi einkalífs hans, þar sem starfsmenn RÚV eiga að hafa afritað síma hans og komið gögnum úr honum í hendur annarra fjölmiðla. Blaðamenn RÚV voru Þóra Arnórsdóttir, þáverandi fréttastjóri fréttaskýringarþáttarins Kveiks, og Arnar Þór Þórisson.
Samkvæmt stefnunni veiktist Páll alvarlega vorið 2021 eftir að fyrrverandi eiginkona hans, sem glímir við geðræn veikindi, hafði gefið honum lyfjaðan bjór. Meðan hann lá á gjörgæslu komst konan yfir farsíma hans og afhenti starfsmanni RÚV hann.
Síminn var að sögn afritaður í Útvarpshúsinu við Efstaleiti og gögn úr honum notuð til fréttagerðar, meðal annars hjá öðrum miðlum sem fjölluðu um svokallaða „skæruliðadeild Samherja“.
Sex blaðamenn, þar af tveir frá RÚV, fengu stöðu sakborninga í rannsókn lögreglu sem stóð yfir í fjögur ár. Í janúar 2025 ákvað ríkissaksóknari að hætta rannsókn málsins að því er varðaði fjölmiðlamennina, meðal annars vegna fyrningar brota og skorts á sönnunargögnum um hlutdeild hvers og eins.
Hins vegar var ákveðið að halda áfram rannsókn á fyrrverandi eiginkonu stefnanda.
Páll heldur því fram að með afritun og dreifingu gagna úr símanum hafi starfsmenn RÚV brotið gegn hegningarlögum, stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.
Hann telur brotið hafa valdið sér verulegum miska og að um hafi verið að ræða ásetningsbrot sem skapi skaðabótaskyldu.
Með bréfi þann 28. maí 2025 bauð Páll RÚV sátt í málinu, en því boði var hafnað.
Því telur hann sig knúinn til að leita réttar síns fyrir dómstólum. Stefnt er að þingfestingu málsins á fimmtudaginn.