Kæra á hendur Ólafi Þór Haukssyni héraðssaksóknara fyrir rangar sakargiftir árið 2012 hefur verið send frá lögreglustjóranum á Vesturlandi til ríkissaksóknara.
Einar Tryggvason, saksóknari hjá ríkissaksóknara, staðfesti þetta við Morgunblaðið en vildi ekki veita frekari upplýsingar um efni eða meðferð málsins. Blaðið hefur óstaðfestar heimildir fyrir því að málið hafi verið tekið til rannsóknar.
Jón Óttar Ólafsson fv. lögreglufulltrúi kærði Ólaf Þór fyrr í mánuðinum til lögreglu fyrir rangar sakargiftir um trúnaðarbrot í máli árið 2012, en þá gegndi Ólafur embætti sérstaks saksóknara hrunmála. Ríkissaksóknari felldi það mál hins vegar niður snemma árs 2013.