Stofna vettvang kvenna í alþjóðaöryggismálum

Nýskipuð stjórn Kvenna í alþjóðaöryggismálum ásamt heiðursgesti stofnfundarins, Þorgerði Katrínu …
Nýskipuð stjórn Kvenna í alþjóðaöryggismálum ásamt heiðursgesti stofnfundarins, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Stofnfundur tengslanetsins Konur í alþjóðaöryggismálum var haldinn í Reykjavík í gær, á hátíðar- og baráttudegi kvenna á Íslandi, 19. júní.

Í tilkynningu Kvenna í alþjóðaöryggismálum segir að tengslanetið sé stofnað til þess að efla, tengja og ekki síst auka þátt kvenna sem starfa í utanríkis-, friðar-, mannúðar-, öryggis- og varnarmálum hjá ríki, einkageira, frjálsum félagasamtökum og akademíu.

„Hugmyndin að Konum í alþjóðaöryggismálum byggir á alþjóðlega tengslanetinu Women in International Security, WIIS,“ segir enn fremur og er í framhaldinu vitnað í orð Brynju Huldar Óskarsdóttur, nýkjörins formanns tengslanetsins.

Bakslag í viðhorfi til jafnréttismála

Segir Brynja um systurfélagsskap annarra sambærilegra tengslaneta að ræða sem starfrækt séu í nágrannalöndunum með það að markmiði að auka áhuga og þekkingu kvenna á alþjóðaöryggismálum, rækta tengsl og veita vettvang handleiðslu á sviði málaflokksins.

„Við höfum verið að sjá ákveðið bakslag í viðhorfi til jafnréttismála undanfarin ár og það bakslag sést líka í alþjóðaöryggismálum. Samhliða því er að færast aukinn hiti í stórveldasamkeppni og óreiðu í alþjóðakerfinu, svo það er enginn tími betri en núna til að setja fókus á að fá fleiri konur að borðinu í þessum málaflokkum,“ segir formaðurinn nýi enn fremur.

Var fundurinn vel sóttur, eftir því sem fram kemur, og skráðu yfir 40 konur sig í tengslanetið nýstofnaða, en á meðal stofnfundargesta var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sem Brynju þótti mikill fengur, ekki síst að heyra Þorgerði hvetja hópinn áfram „og styðja við nýja kynslóð kvenna í alþjóðaöryggismálum“, er haft eftir Brynju í lok tilkynningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »