Kjarnorka kemur ekki til greina á Íslandi að sögn íslenskra stjórnvalda enda nýtur Ísland sérstöðu í endurnýjanlegum orkugjöfum. Í raun hefur það aldrei komið til skoðunar á íslandi, að sögn orkumálaráðuneytisins, sem telur þó að nýting kjarnorku sé mikilvæg í öðrum löndum.
Danska ríkisstjórnin ákvað nýverið að rannsaka möguleika á að nýta kjarnorku. Þingmenn í Kristjánsborgarhöll eru þó ósammála um hvort lyfta eigi 40 ára banni gegn kjarnorku í landinu en búist er við skýrslu um málið á næsta ári að að sögn Lars Aagards, orkumálaráðherra Dana.
Hugmyndir um kjarnorku virðast þó ekki njóta sama stuðnings hér á landi.
„Íslensk stjórnvöld hafa ekki verið að horfa til kjarnorku sem mögulegs orkugjafa,“ segir í svari umhverfis- orku og loftslagsráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is. Þar er vísað til forskots Íslands í nýtingu jarðvarma og vatnsafls.
Ráðuneytið bendir á í svari sínu að öll raforkuframleiðsla á Íslandi sé af endurnýjanlegum uppruna (73% vatnsafl, 26% jarðvarmi og 0,1% vindorka) og um 99% húshitunar á Íslandi (90% jarðvarmi og 9% raforka). Hlutfall jarðefnaeldsneytis hafi minnkað jafnt og þétt í orkubúskap landsmanna undanfarna áratugi.
Stefna stjórnvalda sé að sú þróun haldi áfram og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra vilji enn hraða þeirri þróun. „Það verður gert með því að byggja á styrkleikum Íslands í orkumálum og stefnir ráðherra því ekki á nýtingu kjarnorku hér á landi á næstunni,“ skrifar ráðuneytið.
„Engar hugmyndir um kjarnorkuframleiðslu hafa komið á borð ráðuneytisins og er ekki á dagskrá að ríkið fari í slíka vegferð,“ segir enn fremur í svarinu. Heldur verði byggt á því sem reynst hefur vel.
„Nýting kjarnorku í öðrum löndum er mikilvæg þar sem ekki er aðgengi að endurnýjanlegum orkugjöfum,“ segir að lokum í svari ráðuneytisins.
Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, tjáði sig nýlega um kjarnorkumál, en hann sagði í ræðustól í umræðu um verndar- og orkunýtingaráætlun í byrjun maí að sér þætti „ekki eiga að útiloka neitt“ og nefndi kjarnorku í því samhengi.
Tók hann þar undir orð Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem sagði fyrr í sömu umræðu að „það væri bara ekkert að því að skoða“ kjarnorkunýtingu hér á landi. „Ég vil ekki útiloka bara kjarnorku af því að heitir kjarnorka,“ sagði Vilhjálmur.
Þetta var alls ekki fyrsta sinn sem kjarnorka ber á góma hjá Jón Gnarr en hann stakk upp á kjarnorkuveri á Vestfjörðum.