Elsta sveitarfélag landsins heldur upp á afmæli

Esther Guðjónsdóttir, formaður afmælisnefndar Hrunamannahrepps.
Esther Guðjónsdóttir, formaður afmælisnefndar Hrunamannahrepps. Ljósmynd/Esther Guðjónsdóttir

Hrunamannahreppur heldur á næsta ári upp á 1.150 ára afmæli hreppsins og að 1.200 ár eru liðin frá landnámi. Verður tímamótunum fagnað með hátíðardagskrá, en raunverulegur aldur sveitarfélagsins hefur þó verið umdeildur.

„Við vildum halda upp á 1.200 ára afmæli hreppsins en það ruggaði við fræðasamfélaginu,“ segir Esther Guðjónsdóttir, formaður afmælisnefndar Hrunamannahrepps. Afmælisnefndin var skipuð til að skipuleggja dagskrá í tilefni afmælisins.

Eldra en opinbert landnám

Afmælishátíðin er hugarfóstur Estherar. „Ég fékk þessa hugmynd fyrir mörgum árum síðan. Það hefur aldrei verið haldið upp á afmæli sveitarfélagsins. Við erum elsta sveitarfélag landsins sem er getið í Landnámu og hefur ekki verið sameinað öðru sveitarfélagi. Þess vegna fannst okkur kjörið að halda upp á afmælið.“

„Við fengum spurningar frá fræðimönnum og áhugafólki af hverju við vildum hafa þetta 1.200 ár þegar opinbert landnám Íslands væri yngra. Opinbert landnám er árið 874 en við vildum fara 50 ár lengra aftur í tímann og það þótti ekki við hæfi. En nýjustu rannsóknir benda til þess að landnám sé eldra,“ segir Esther.

Hún segir ekkert annað sveitarfélag hafa gert tilkall til þess að vera elsta sveitarfélagið. „Samkvæmt Landnámu þá erum við elst. Öll hin sem eru nefnd þar hafa sameinast öðrum og eru þar af leiðandi ekki sama sveitarfélag og þau voru við landnám. Sveitarfélagamörk Hrunamannahrepps hafa aldrei breyst því við erum landfræðilega afmörkuð með ám sitthvoru megin við okkur. Þess vegna stendur þetta svo sterkt.“

Ætla að skilja eitthvað eftir

Formleg hátíðardagskrá hefst 17. júní á næsta ári en það verða viðburðir allt árið. Aðal hátíðarhöldin verða svo dagana 20. til 21. júní. 

„Við ætlum að leita aðeins til fortíðar,“ segir Esther. Fólk geti ef til vill búist við að sjá víkinga, tónleika, ýmsar sýningar og jafnvel námskeið. „Við ætlum að reyna að skilja eitthvað eftir okkur, eitthvað varanlegt.

Eitt verkefni afmælishátíðarinnar er þegar farið af stað að sögn Estherar. Stefnt sé á að ganga hringinn í kringum sveitarfélagið í um það bil fimmtán göngum, það eigi að klárast á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »