Guðmundur Fylkisson lögreglumaður, sem hefur séð um leit að týndum börnum í rúman áratug, áttar sig ekki á því hvaðan þær upplýsingar koma að við séum í góðum málum varðandi meðferðarúrræði fyrir börn og unglinga, líkt og ráðherra hélt fram í viðtali á mbl.is í síðustu viku. Talað hafi verið um framtíðarlausnir í að minnsta kosti heilt ár, án þess að nokkuð sé fast í hendi.
Lögreglumaðurinn furðar sig á ummælum Guðmundar Inga Kristinssonar, mennta- og barnamálaráðherra, enda er þetta alls ekki sú upplifun sem hann hefur af þeim verkefnum sem rætt er um.
Börnum í neyslu fjölgar nú örar en áður, eitthvað sem barnaverndarþjónustan hefur bent á að megi að hluta til rekja til úrræðaleysis í meðferðarmálum, og leitarbeiðnir það sem af er ári eru mun fleiri en síðustu ár. Stór hluti leitarbeiðnanna eru vegna barna sem strokið hafa af meðferðarheimilum, en hinn hlutinn vegna barna sem ættu að vera í meðferð.
Sagði ráðherra bæði að staðan væri ágæt og að við værum í góðum málum varðandi meðferðarúrræði fyrir börn og unglinga með fjölþættan vanda. Vísaði hann til þess að framkvæmdir stæðu yfir á meðferðarheimilinu Stuðlum sem ljúka ætti um áramótin og að mjög góð aðstaða væri á meðferðarheimilinu Blönduhlíð á Vogi, þar sem strok hafa verið töluvert vandamál. 16 stúlka slasaðist þar alvarlega við stroktilraun í apríl, en hún hryggbrotnaði þegar hún féll út um glugga.
„Ég átta mig ekki á því hvaðan þær upplýsingar eru að koma um að hlutirnir séu í góðu lagi. Þó að menn hafi einhverja framtíðarsýn, að einhverjir hlutir eigi að verða í góðu lagi eftir einhverja mánuði, þá erum við búin að heyra það í ár og erum ekki farin að sjá neitt ennþá fast í hendi,“ segir Guðmundur Fylkisson í samtali við mbl.is.
Hann tekur þó fram að hann sinni ekki meðferðarmálum.
„Ég sé bara um að eltast við börnin sem eiga að vera í meðferð eða þurfa að komast í meðferð,“ segir Guðmundur, en hann hefur haft í nógu að snúast síðustu mánuði í þeim verkefnum, enda hefur leitarbeiðnum fjölgað um næstum 100 prósent á milli ára.
Á Stuðlum er bæði verið að endurbyggja álmu fyrir neyðarvistun sem gjöreyðilagðist í bruna í október, þar sem 17 ára piltur lést, og gera breytingar á húsnæðinu svo það henti sem úrræði fyrir sakhæf börn og börn sem eru hættuleg sjálfum sér og öðrum. Gert er ráð fyrir því að þar verði í framtíðinni eingöngu vistaðir einstaklingar sem falla undir þá skilgreiningu.
Fyrir liggur að ekki verður hægt að ljúka þeim framkvæmdum fyrr en meðferðarheimilið Lækjarbakki verður opnað á ný í Gunnarsholti á Rangárvöllum, þar sem verður boðið upp á langtímameðferð fyrir drengi.
Lækjarbakka var lokað í apríl í fyrra þegar upp kom mygla í húsnæðinu og því hefur ekki verið hægt senda drengi í langtímameðferð í rúmt ár. Síðustu mánuði hafa þó verið vistaðir drengir á Stuðlum sem þurfa á langtímameðferð að halda, en þeir þurfa væntanlega að komast í viðeigandi úrræði á Lækjarbakka áður en hægt er að ljúka framkvæmdum á Stuðlum.
Verður það í fyrsta lagi í lok september eða október, en greint var frá því á mbl.is í vikunni að asbest hefði fundist við framkvæmdir þar.
Guðmundur segist þó ekki endilega sjá mikla fjölgun í hópi þeirra barna sem eru í hvað hörðustu neyslunni. En sú breyting hefur orðið að börn og unglingar eru hætt að sprauta sig og lyfseðlisskyld lyf hafa komið í staðinn. Guðmundur segir þau þó alveg jafn hættuleg.
Þá kemur hann inn á að mikilvægt að reyna að uppræta smásöluverslun með fíkniefni.
„Ég held að lögreglan þurfi aðeins að fara að endurskoða áherslur í því að reyna að grípa smásöluverslun með fíkniefni og lyf, sem á sér stað á samfélagsmiðlum. Á meðan áhersla lögreglunnar er á stóru málin þá flæða smáauglýsingarnar yfir okkur þar sem þú getur fengið lyf og efni innan fimm mínútna,“ segir Guðmundur.
„Aðgengi barna og ungmenna að þessu er orðið of mikið og það má huga huga að gera meira í því. Ég er ekki að segja að það sé ekkert gert, en það megi gera meira. Þar þarf löggjafinn líka að hugsa sinn gang.“