Lítið hlaup með stórt hjarta

Vinirnir Sturlaugur Hrafn Ólafsson, Eyjólfur Flóki Freysson, Helgi Þrastarson og …
Vinirnir Sturlaugur Hrafn Ólafsson, Eyjólfur Flóki Freysson, Helgi Þrastarson og Ari Flóki Helgason. Ljósmynd/Aðsend

 „Við vildum gera eitthvað sem skiptir máli áður en grunnskólagöngunni lýkur og ákváðum að nota tíma okkar og orku í þetta framtak, segja fjórir drengir í 10. bekk í Laugalækjarskóla sem standa fyrir góðgerðarhlaupi um helgina.

Hlaupið, sem drengirnir lýsa sem „litlu hlaupi með stórt hjarta“, verður í kringum Húsdýragarðinn, sunnudaginn næstkomandi klukkan 14:00. Allur ágóði hlaupsins rennur til styrktarfélagsins Gleym mér ei sem styður við foreldra sem missa barn á meðgöngu og í eða eftir fæðingu.

Vinirnir Sturlaugur Hrafn Ólafsson, Eyjólfur Flóki Freysson, Helgi Þrastarson og Ari Flóki Helgason skipuleggja hlaupið. Þeir segjast bæði vilja safna fé fyrir Gleym mér ei og vekja athygli á mikilvægi þess að styðja við foreldra sem verða fyrir missi á meðgöngu eða fljótlega eftir fæðingu. Málstaðurinn er drengjunum hugfólginn en foreldrar eins þeirra misstu á meðgöngu.

Hlaupið er lokaverkefni í Laugalækjarskóla. „Við ætluðum að reyna að gera eitthvað lokaverkefni sem tengdist þessu og þá stakk einn strákanna í hópnum upp á að við héldum svona hlaup,“ segir Sturlaugur Hrafn í samtali við blaðamann.

Hringurinn í kringum Húsdýragarðinn er um einn kílómetri og fólk getur ákveðið sjálft hvað það vill hlaupa marga hringi.

Skráning í hlaupið fer fram á hlaup.is. Allir eru velkomnir, hvort sem fólk ætlar að hlaupa eða ekki. „Mætið í stemninguna, bjóðið öllum sem þið þekkið,“ segir einn drengjanna í myndbandi á Instagram-síðu hlaupsins.

„Okkur finnst gott að láta gott af okkur leiða og gera hluti sem eru góðir fyrir samfélagið og hjálpa fólki sem þarf á því að halda,“ segir Sturlaugur.

Í haust stefna drengirnir á framhaldsskóla þar sem þeir ætla að halda áfram að gera skemmtilega hluti og láta gott af sér leiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »