Úlfar Lúðvíksson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum er gestur Spursmála í dag. Þar segir hann frá aðdraganda og eftirleik þess þegar honum var bolað úr embætti. Hann dregur upp dökka mynd af stjórnkerfinu.
Og hann dregur ekkert undan. „Ég var auðvitað rekinn, það heitir það á góðu máli, sama hvað lögfræðingurinn Þorbjörg segir,“ segir hann þegar hann lýsir fundi sem hann átti með Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, dómsmálaráðherra og ráðuneytisstjóra hennar, Hauki Guðmundssyni.
Úlfar heldur því fram að innri landamæri Íslands séu míglek og að háttsettir einstaklingar innan stjórnkerfisins hafi skellt skollaeyrum við viðvörunarorðum um að ástandið væri ótryggt. Hann spyr hver ábyrgð þeirra einstaklinga sem sitja meðal annars í þjóðaröryggisráði sé.
Segir Úlfar að almenningur á Íslandi eigi heimtingu á að vita hver raunveruleg staða þessara mála er. Á sama tíma sé tilraun gerð til þess að slá leyndarhjúp um ástandið.
Í viðtalinu ræðir hann verkefni dómsmálaráðuneytisins vítt og breitt. Lýsir hann einnig ófremdarástandi á sviði fangelsismála og segir að stórhættulegir morðingjar gangi í raun lausir þótt þeir eigi að heita að vera á bak við lás og slá.
Viðtalið fer í loftið á mbl.is klukkan 14.00.