Opna tvö þúsund „ný“ leikskólapláss

Níu uppbyggingarverkefni gætu tryggt 900 ný leikskólapláss á næstu fimm …
Níu uppbyggingarverkefni gætu tryggt 900 ný leikskólapláss á næstu fimm árum. Kostnaðurinn liggur þó enn ekki fyrir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjavíkurborg stefnir á að opna tæplega tvö þúsund „ný“ leikskólapláss á næstu fimm árum. Aðeins um helmingur þessara nýju tillagna er nýr, og enn liggur ekki skýrt fyrir hvernig tækla eigi mönnunarvandann á leikskólunum borgarinnar.

Borgarráð samþykkti í dag metnaðarfullar tillögur spretthóps borgarstjóra um aukna leikskólauppbyggingu sem gætu skilað allt að 1.987 leikskólaplássum. Með þessu myndi fjöldi leikskólaplássa í borginni fjölga um þriðjung.

En margar af þessum tillögum eru ekki nýjar og enn er óljóst hvernig einhverjar tillögur verða fjármagnaðar.

Skúli Þór Helgason, formaður spretthópsins og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Skúli Þór Helgason, formaður spretthópsins og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Morgunblaðið/Eyþór

„Þetta er blanda af eldri ákvörðunum og nýjum,“ segir Skúli Helgason, formaður spretthópsins og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Það sem er þó „glænýtt“ í samþykkt borgarráðs er að sögn Skúla 900 pláss sem munu skapast vegna níu nýbygginga, og 164 ný pláss sem munu skapast með færanlegum húsum í starfandi leikskólum.

Í tillögunum segir einnig að 264 pláss muni „endurheimtast eftir verklok framkvæmda“ en loka hefur þurft nokkrum leikskólum á síðustu árum vegna mygluskemmda. Síðan segir að 730 pláss til viðbótar hafi þegar verið ákveðin í aðgerðaráætluninni Brúum bilið, en þegar er gert ráð fyrir þessum plássum í fjárfestingaáætlun borgarinnar.

Níu nýir leikskólar skili níu hundurð nýjum plássum

Í tillögunum eru níu uppbyggingarverkefni lögð til; þrír nýir borgarleikskólar, einn nýr Hjallastefnuleikskóli, einn nýr leikskóli rekinn af Félagsstofnun stúdenta, þrenn ný húsnæði fyrir leikskóla víða í borginni og nýr „mögulegur“ leikskóli á Loftleiðareit við Hlíðarenda.

„Fimm af þessum níu nýbyggingartillögum tengjast einum og sama samningnum. Það eru samningaviðræður sem eru langt komnar, sem sagt val á milli mismunandi bjóðenda“ segir Skúli og nefnir þar leikskólana Laugasól, Safamýri, Miðborg, Sunnuás og Ægisborg.

Í „þessum mánuði“ verður tekin endanleg ákvörðun um byggingaraðila, bætir Skúli við.

„Þetta er allt hugsað sem ein heild þar sem við getum náð hagkvæmari niðurstöðu með því að vera með sambærilega hönnun. Það mun væntanlega þýða að byggingartíminn verður skemmri og við getum fengið meira fyrir minna fjármagn.“

Áætluð verklok fyrir nýjan borgarleikskóla við Rafstöðvarveg eru næsta vor, samkvæmt tillögum.

Það verkefni sem er styst á veg komið er „mögulegi“ leikskólinn á Loftleiðareit þar sem það er viðræður eru í gangi en verkefnið er „ekki nægilega þroskað til þess að við höfum það með í talningunni á fjölda plássa,“ segir Skúli.

„Hreystileikskólar“ og „hröðun“

Í tillögunni segir einnig að hraða eigi verkefnum sem snúa að stækkun starfandi borgarrekinna leikskóla með færanlegum stofum. Það eigi að tryggja 164 ný pláss. Tvær slíkar stofur séu þegar í byggingu sem muni fara á lóð Seljaborgar.

Þar að auki sé á áætlun útboð fyrir fjórtán stofur, sem muni opna fyrir starfsemi á tímabilinu vor 2026 til fyrri hluta árs 2027 á lóðum sex leikskóla: Vesturborg, Hólaborg, Jörfi, Árborg, Grandaborg og Maríuborg. Kostnaðaráætlun fyrir þau fjórtán hús er 2.100 m.kr, samkvæmt upplýsingum frá borgarráði.

Auk þess lagði spretthópurinn til undirbúning „hreystileikskóla“ í samvinnu við íþróttafélögin í Reykjavík. Þar verði lögð áhersla á fjölbreytta hreyfingu og útivist leikskólabarnanna, með betri nýtingu íþróttamannvirkja í borginni fyrir yngstu kynslóðina.

Þannig mætti nýta íþróttamannvirkin sem leikskóla, svo þau liggi ekki auð á daginn. Valsmenn hafa sýnt þessu áhuga.

„Þetta er bara hugmynd sem við viljum fara í samtöl við íþróttafélögin með,“ segir Skúli. „Við erum byrjuð í samtali við Val um Hlíðarendasvæðið þar sem þeir eru komnir langt með hugmyndina um að byggja fjölnota íþróttahús og þá erum við að kanna möguleikana á að það gæti nýst að hluta til sem leikskólahúsnæði.

Þá verði einnig teknir upp stofnstyrkir að hámarki 300 m.kr. til að hvetja til fjölgunar plássa á sjálfstætt starfandi leikskólum.

Og mönnunarvandinn?

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bentu á í bókun sinni á fundinum í dag að enn skorti fjármögnun fyrir uppbygginguna og aðgerðir til að tryggja mönnun á fyrirhuguðum plássum.

Vissulega lagði hópurinn til að skoða breytingar á reglum um leikskólastarf sem væri ætlað að bæta stöðu mönnunar leikskóla og starfsaðstæður, m.a. með því að „samræma betur vinnutíma starfsfólks í leikskólum og grunnskólum“.

Í tillögunum eru þó ekki lagðar til beinar aðgerðir, heldur mun nýr stýrihópur yfirfara hugmyndir frá skóla- og frístundasviði. Sá hópur hefur mánuð til að skila af sér tillögum, að sögn Skúla.

Framsókn: Fátt nýtt undir sólinni

 „En svo eru þessir stóru hlutir eins og að það er nýbúið að ganga frá kjarasamningum,“ segir hann. „Og þetta mikla uppbyggingarplan er að fara að bæta starfsaðstæður. Við erum að bjóða upp á miklu betri húsakost en við höfum getað gert áður.“

Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins benti á í sinni bókun að ekki væri um nýja áætlun að ræða – að undanskildum „hreystiskóla“ sem væri vert að kanna – heldur væri nýr meirihluti að eigna sér vinnu fyrri meirihluta. Einnig væri leitt að sjá að tillaga frá síðasta ári um stofnstyrki til sjálfstætt starfandi leikskóla til leikskólauppbyggingar hefði tekið breytingum þar sem segir að „styrkir miðist eingöngu við félög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.“

„Eðlilegt er að mati Framsóknar að aðilar sem reka leikskóla greiði sér hóflegan arð af starfsemi sinni að því gefnu að opinbert fé renni til skólastarfsins,“ skrifa Framsóknarmennirnir.

Í síðasta kafla tillagnanna er heildaryfirlit um yfir verkefni í farvegi sem eiga að fjölga leikskólaplássum frá núverandi stöðu.

Þar er um að ræða bæði endurheimt plássa í kjölfar verkloka á viðhaldsvinnu, nýjar færanlegar einingar við leikskóla, stækkun leikskóla með viðbyggingum og svo nýjar byggingar.

Sem fyrr segir eru það munu 264 endurheimtast eftir verklok framkvæmda og 730 bætast við vegna Brúum bilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »