Dúx og semídúx lærðu íslensku frá grunni með námi

Vinkonurnar Ngan, Dana og Díana útskrifuðust úr FÁ í dag.
Vinkonurnar Ngan, Dana og Díana útskrifuðust úr FÁ í dag. mbl.is/Karítas

Vinkonurnar Ngan, Dana og Diana fengu allar viðurkenningu fyrir námsárangur við útskrift Fjölbrautaskólans í Ármúla í dag. Þær tala reiprennandi íslensku en fyrir þremur árum töluðu þær varla stakt orð í tungumálinu. Ngan var dúx skólans og Díana semídúx.

Ngan Kieu Tran er 19 ára gömul og flutti með móður sinni til Íslands frá Ho Chi Minh í Víetnam í júlí 2022.

Diana Al Barouki og Dana Zaher El Deen eru báðar 18 ára gamlar og fluttu til Íslands frá borginni Sweida í Sýrlandi. Dana flutti til Íslands í apríl 2022 en Díana í nóvember sama ár.

Dana og Ngan kynntust í félagsfræðitíma í FÁ en Diana kynntist Dönu í gegnum sameiginlega vinkonu þeirra.

„Við erum núna bestu vinkonur,“ segir Diana, en vinkonurnar þrjár ræddu við mbl.is í tilefni útskriftar þeirra.

Lærðu íslensku samhliða námi á íslensku

Spurðar hvað hafi verið það erfiðasta á skólagöngu þeirra í Ármúlanum voru þær sammála um að það hafi verið að læra íslenskuna frá grunni á sama tíma og allt nám þeirra fór fram á íslensku. Var því oft um gríðarlega mikla þýðingarvinnu að ræða.

Stelpurnar hafa þó náð góðum tökum á tungumálinu en tala sín á milli ýmist á íslensku eða ensku.

Þær tala eingöngu íslensku þegar þær vinna sem aðstoðarkennarar í tungumálaskólanum Dósaverksmiðjunni.

Ngan Kieu Tran var dúx FÁ með meðaleinkunina 9,82.
Ngan Kieu Tran var dúx FÁ með meðaleinkunina 9,82. mbl.is/Karítas

Vissi lítið um Ísland fyrir flutninga

Diana segir að hún hafi í raun ekkert vitað um Ísland áður en hún flutti hingað en hafði þó komist að því að hér væru góðir skólar.

„Ég vil læra. Ég læri mikið og ég vil góða framtíð fyrir mig,“ segir Diana.

Díana og Dana segja að ekki hafi verið sérstaklega erfitt fyrir þær að aðlagast íslensku samfélagi eftir flutningana.

„Það gekk mjög vel,“ segir Dana. „Við fengum líka stuðning frá Íslendingum,“ segir Diana og tók sérstaklega fram stuðning kennara þeirra.

Eitt tækifæri til að ná

Ngan segir að sér hafi sömuleiðis gengið vel að aðlagast íslensku samfélagi en einna helst hafi hún fundið fyrir mun á íslenska og víetnamska skólakerfinu.

„Það er erfitt að læra í Víetnam. Ef ég fell í skólanum þá fæ ég ekki annað tækifæri. Mamma mín kom til Íslands fyrst fyrir vinnuna og þá ákvað hún að á Íslandi væri gott að búa. Hún sagði fjölskyldu minni að koma til Íslands,“ segir Ngan.

Tók hún einnig fram að henni hafi fundist mjög skrýtið að hér kalli nemendur kennara sína með fornafni. Diana og Dana tóku undir að þetta hafi verið skrýtin breyting frá heimalandi sínu.

Einnig tók það tíma að venjast því að fæstir Íslendingar væru með eftirnöfn.

Diana Al Barouki lauk námi sínu með meðaleinkunina 9,38 og …
Diana Al Barouki lauk námi sínu með meðaleinkunina 9,38 og var semídúx skólans. mbl.is/Karítas

Með 9,82 í meðaleinkunn

Ngan var dúx skólans með meðaleinkunnina 9,82 og fékk viðurkenningu fyrir námsárangur í íslensku, stærðfræði, spænsku, ensku og raungreinum.

Diana var semidúx með meðaleinkunnina 9,38 og fékk viðurkenningu fyrir námsárangur í íslensku, spænsku og félagsgreinum.

Dana var með meðaleinkunnina 9,18 og fékk viðurkenningu fyrir námsárangur í íslensku, spænsku og listgreinum.

Diana spilaði á fiðlu í útskriftarathöfninni og var með ávarp fyrir hönd útskriftarnema ásamt Dönu og Ngan.

Nýstúdentar við útskrift FÁ í dag.
Nýstúdentar við útskrift FÁ í dag. Ljósmynd/Aðsend

Allar í HR

Vinkonurnar ætla sér allar í Háskólann í Reykjavík næsta vetur og stefna allar á fimm ára nám þar, Diana í tölvunarfræði, Dana í lögfræði og Ngan í heilbrigðisverkfræði.

Ástæðuna fyrir valinu á skóla segja þær vera að þar sé einna best gert við nemendur sem hafa íslensku sem sitt annað tungumál.

Dana Zaher El Deen lauk námi með meðaleinkunnina 9.18 og …
Dana Zaher El Deen lauk námi með meðaleinkunnina 9.18 og fékk viðurkenningu fyrir námsárangur í íslensku, spænsku og listgreinum. mbl.is/Karítas

Drápu sjö úr fjölskyldunni

Spurðar út í helsta muninn á því að búa á Sýrlandi og á Íslandi segja Diana og Dana frá eina muninum sem skiptir máli: Á Sýrlandi er stríð en á Íslandi ríkir friður.

„Í landinu mínu er ekki öryggi og friður. Hér finnum við fyrir friði,“ segir Diana. „Af því að það er stríð á Sýrlandi,“ bætir Dana við.

Eru þær sammála um að erfitt sé að fylgjast með fréttum um heimaland þeirra, enda býr meirihluti skyldmenna þeirra þar enn.

„Allar fjölskyldur okkar eiga heima á Sýrlandi,“ segir Dana. Hún segir frá árásum á heimaborg þeirra Sweida:

„Þau drápu marga frá okkar borg. Það var alls ekki auðvelt. Við þurfum alltaf að vera að tala við fjölskylduna og spyrja hvort það sé allt í lagi,“ segir hún.

„Þau voru að reyna að fara inn í okkar borg, Sweida. Þau drápu sjö frá fjölskyldu minni,“ segir Dana.

Ætla ekki aftur heim

Faðir Diönu flutti fyrstur af fjölskyldu hennar til Íslands og í kjölfarið kom hún sjálf ásamt móður sinni og systur á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Svipaða sögu er að segja hjá Dönu. Fyrst kom hún ásamt móður sinni og bróður og svo í kjölfarið faðir hennar til þess að sameina fjölskyldu þeirra.

Haldið þið að þið munið einhvern tímann flytja aftur til Sýrlands?

„Ég held það ekki,“ segir Diana eftir að hugsa sig stuttlega um. „Nei, sagði Dana í kjölfarið og bætti við að þær elski Ísland.

„Við viljum vera hér alltaf, segir Diana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »