Nýr leikskóli rís í Hagahverfi á Akureyri

Kristín Jóhannesdóttir sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs, Heimir Örn Árnason formaður …
Kristín Jóhannesdóttir sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs, Heimir Örn Árnason formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri. Ljósmynd/Akureyrarbær

Nýr leikskóli með átta deildum fyrir nemendur á aldrinum eins til sex ára verður reistur við Naustagötu í Hagahverfi á Akureyri. Gert er ráð fyrir plássi fyrir allt að 156 börn, en um helmingur þeirra mun þó koma af deildum sem nú eru í bráðabirgðahúsnæði. 

Framkvæmdunum verður skipt upp í tvo áfanga og áætlað er að fyrri áfanginn með fimm deildum verði tilbúinn í ágúst á næsta ári. Fullbúinn skólinn verður með 47 stöðugildum en fjöldi starfsfólks er áætlaður 52-57.

Heimir Örn Árnason, formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs, tók fyrstu skóflustunguna að leikskólanum á þriðjudaginn. Leikskólinn hefur hlotið heitið Hagasteinn. 

Deildir á öðrum stöðum lagaðar niður

Samhliða því að Hagasteinn verður tekinn í notkun verða einhverjar deildir á öðrum leikskólum lagðar niður að sögn Heimis Arnars. Þá mun starfsfólk færast yfir á Hagastein, en hann segir að enginn skortur hefur verið á mönnun á leikskólum bæjarins.

Um 80 börn í bráðabirgðahúsnæði

„Stóri vandinn var leystur með því að færa ungbarnadeild í rými í Oddeyrarskóla sem var tekið alveg í gegn og í Síðuskóla var lausu rými breytt í efstu deild leikskóla sem við erum að skoða hvort að við höldum áfram,“ segir Heimir. Einnig hefur ein deild verið í Naustaskóla frá árinu 2012. 

Með tilkomu Hagasteins mun Oddeyrarskóli fá sitt pláss til baka og endurbætur annarra leikskóla geta hafist. „Þessi leikskóli mun alveg sýna sitt mikilvægi á næstu árum,“ bætir Heimir við. Samtals eru um 80 börn á þessum deildum sem eru í bráðabirgðahúsnæði.

Ár hvert hafa alltaf nokkur börn þurft að bíða eftir svari varðandi pláss fram á síðustu stundu þar sem erfitt er að vita nákvæmlega hve mörg börn hætta á leikskólunum í ágúst. „Við erum að vonast til þess að geta hætt því með nýjum leikskóla og því svarað fyrr,“ segir Heimir. 

Jafn mörg pláss hafa verið í boði og þörf er á. Þegar Hagasteinn verður fullklár verða til fleiri leikskólapláss en nú eru í boði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »