Rangárþing ytra hefur samþykkt að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á landnotkun í aðalskipulagi í Gaddstaðaeyju, þar sem gert verði ráð fyrir breytingu á landnotkun. Núverandi óbyggt svæði breytist í verslunar- og þjónustusvæði.
Á Gaddstaðaflötum er keppnissvæði hestamanna og þar hafa Rangæingar margoft haldið landsmót.
Breytingin nær til Gaddstaðaeyjar, sem er eyja í einkaeigu í Ytri-Rangá, um 10 hektarar að stærð. Skipulagssvæðið er skilgreint sem óbyggt land í aðalskipulaginu, og er innan þéttbýlismarka Hellu. Fyrirhugað er að reisa 160 herbergja hótel syðst á eynni fyrir allt að 320 gesti og vera með afþreyingu, t.a.m. baðlón.
Ásamt hóteli er fyrirhugað að vera með 40 lítil gestahús til útleigu á eynni. Gestahúsin munu tengjast rekstri hótelsins.
„Hótelið og starfsemin öll kemur til með að njóta sérstöðu í ferðamannaiðnaðinum á Íslandi vegna staðsetningar í/við laxveiðiá,“ segir í skipulagslýsingu.
Stefnt sé að því að hótelið verði í samræmi við umhverfi, landslag og sögulegar skírskotanir. Boðið verði upp á gistiaðstöðu í hæsta gæðaflokki.
Aðkoma verður um Gaddstaðaveg, nýjan veg af honum og nýja brú sem gerð verður út í eyna yfir Ytri-Rangá.
Eyjan er algróin og rennsli Ytri-Rangár, sem er lindá, er stöðugt og flóðahætta því lítil, segir í skipulagslýsingu. Skipulagssvæðið er skilgreint sem mikilvægt fuglaverndunarsvæði eins og nær allt Suðurlandsundirlendið.
Aðalskipulagsbreytingin fellur undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
Meta skal líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum og starfsemi á aðliggjandi svæði og einstaka þætti áætlunarinnar sjálfrar, eftir því sem við á.
Skipulagslýsing, sem unnin er af verkfræðistofunni Eflu, er birt á skipulagsgatt.is. Þar getur almenningur kynnt sér áformin á Gaddstaðaeyju og sent inn athugasemdir. Þá verður óskað eftir umsögnum ýmissa stofnana.
Athugasemdafrestur er til og með 31. maí nk.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.