Öll fangelsi hafa verið yfirfull

Stjórn Fangavarðafélags Íslands (FVFÍ) lýsir yfir þungum áhyggjum af ofnýtingu fangelsa landsins.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að á síðastliðnum vikum „hafa öll fangelsi verið yfirfull og yfirvöld brugðið á það ráð að geyma gæsluvarðhaldsfanga á lögreglustöðvum dögum saman á meðan beðið er eftir plássi fyrir þá í fangelsunum.”

Fram kemur einnig að slík fullnýting á klefum sé til þess fallin að skapa óvissu og óöryggi í rekstri fangelsanna þar sem erfitt hafi reynst að flytja fanga milli staða og sveigjanleiki enginn til að bregðast við óvæntum uppákomum.

Dómar fyrnast

„Dæmi er um að fangar sem úrskurðaðir hafa verið í gæsluvarðhald án takmarkanna þurfi að gista í einangrunarklefum til lengri tíma vegna plássleysis. Ástand þetta bitnar ekki einungis á starfsfólki fangelsanna heldur einnig öllum föngunum sem líða fyrir m.a. skerta þjónustu og eftirlit,” segir í tilkynningunni.

„Á meðan svo gott sem allir lausir klefar fara í að hýsa gæsluvarðhaldsfanga getur Fangelsismálastofnun ekki kallað inn fanga til að sitja af sér dóma og enn aukast líkur á því að refsidómar dæmdra einstaklinga fyrnist.”

Að lokum skorar stjórn FVFÍ á stjórnvöld að bregðast við þessu fordæmalausa ástandi í fangelsiskerfinu svo hægt sé að tryggja öryggi og eðlilega starfsemi í fangelsum landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »