„Ég fagna því að stýrivaxtalækkunarferlið haldi áfram en ég hefði svo sannarlega viljað sjá kröftugra skref stigið og að vextirnir hefðu verið lækkaðir um 0,50 punkta.“
Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og formaður Verkalýðsfélags Akraness, þegar leitað var eftir viðbrögðum hans um þá ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans að lækka stýrivextina um 0,25 prósent.
Eftir lækkunina standa vextirnir í 7,50% en þetta er fimmta skipti í röð sem bankinn lækkar vexti sína.
Vilhjálmur segir að skilaboðin sem hefðu verið fólgin í því að lækka stýrivextina um 0,50% væru að ná niður verðbólguvæntingum.
„Að sjálfsögðu er það bankinn sjálfur sem stjórnar væntingunum út frá vaxtastigi en við fögnum því samt að þetta er fimmta lækkunin í röð og við skulum vona að þetta ferli haldi áfram. Við grátum ekki að sjá lækkun,“ segir Vilhjálmur við mbl.is.
Næsta stýrivaxtaákvörðun verður 20. ágúst og segir Vilhjálmur ekkert ólíklegt að raunvaxtastigið eigi eftir að hækka í millitíðinni.
Vilhjálmur er ekki sáttur við hátt verð á olíu og bensíni hér á landi. Hann bendir á að heimsmarkaðsverð á olíu hafi lækkað um á þriðja tug prósenta á síðustu 12 mánuðum. Krónan hafi styrkst um 7% gagnvart dollara en bensínverð hafi einungis lækkað um 2,8%.
„Þetta er rannsóknarefni. Það er ekki hægt að misbjóða neytendum með þessum hætti og þetta er óþolandi með öllu. Það stendur ekki á þeim að þegar heimsmarkaðsverð á olíu hækkar hressilega þá hækka olíufélögin verðið samdægurs. Menn finna alltaf góðar og gildar ástæður fyrir verulegum hækkunum en það stendur á svörum þegar svona staðreyndir blasa við,“ segir Vilhjálmur.