„Ég held að það sé klárlega af hinu góða að vera með ólík rekstarform. Ég held að það sé ekki gott að allur reksturinn sé á einni hendi og ég held að það að það séu einkareknar heilsugæslustöðvar hérna veiti opinbera kerfinu bara gott aðhald,” segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélagsins, spurð hvort að einkarekstur sé eitthvað sem horfa megi til í ríkara mæli þegar það kemur að því að vinna á þeim vanda sem ríkir innan heilsugæslunnar í landinu.
Hún leggur áherslu á mikilvægi þess að hlustað verði á heimilislækna þegar kemur að því að vinna að úrbótum á kerfinu og hvetur fólk í landinu til að láta í sér heyra þegar það rekst á brotalamir innan þess.
Steinunn gerði stöðu heilsugæslunnar að umtalsefni í skoðanapistli á Vísi um helgina þar sem hún ræddi hvernig læknar í dag hafi ekki svigrúm til að sinna forvörnum og koma í veg fyrir langvinna sjúkdóma eins og þeir myndu vilja. Bið eftir tímum sé mjög löng og erfitt geti verið að komast að hjá heimilislækni ef vandamálið er ekki mjög brýnt.
„Af ýmsum ástæðum fer stór hluti tíma lækna í að slökkva elda, í stað þess að koma í veg fyrir að þeir kvikni til að byrja með,” skrifaði Steinunn.
Steinunn ræddi stöðu heimilislækninga og heilsugæslu í landinu við mbl.is en hún segir vandamálið innan kerfisins í raun tvíþætt.
„Bæði erum við ekki að nýta heimilislæknana okkar rétt eða skilvirkt og á sama tíma eru þeir klárlega of fáir. Þannig þetta er tvöfaldur vandi,” segir Steinunn og bætir við:
„Á meðan heimilislæknar eru ekki fleiri er mjög blóðugt að fara ekki bara í gagngera endurhugsun á því hvernig við forgangsröðum þeirra starfskröftum.”
Í þessu samhengi bendir hún á að mikill tími hjá heimilislæknum fari í ýmsa pappírsvinnu og skriffinnsku og að þegar tilraunir hafi verið gerðar til að efla heilsugæsluna í gegnum tíðina hafi áherslan yfirleitt verið á „eyrnamerkt sérverkefni“ frekar en á að styrkja grundvallarstarf heilsugæslunnar.
Samkvæmt gæða- og þjónustukönnunum sem gerðar hafa verið fyrir Sjúkratryggingar Íslands síðustu ár hefur komið í ljós að ánægja skjólstæðinga heilsugæslustöðvanna á höfuðborgarsvæðinu fer minnkandi.
Mest mælist ánægjan þó meðal skjólstæðinga einkarekinna stöðva en árið 2024 röðuðu einkareknar stöðvar sér í fjögur efstu sætin þegar spurt var út í ánægju skjólstæðinga.
Spurð hvort horfa ætti í ríkara mæli til einkarekinna stöðva til að bæta þjónustu innan heilsugæslunnar segir Steinunn:
„Ég held að það sé klárlega af hinu góða að vera með ólík rekstrarform. Ég held að það sé ekki gott að allur reksturinn sé á einni hendi og ég held að það að það séu einkareknar heilsugæslustöðvar hér veiti opinbera kerfinu bara gott aðhald.
Það er ekki gott að það sé bara einn þjónustuveitandi og þar með talið einn atvinnuveitandi fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Það að hafa fleiri en eitt rekstrarform er að mínu mati af hinu góða fyrir alla.”
Þá bendir Steinunn á að læknar sem starfi innan einkarekinna heilsugæslustöðva upplifi að þeir fái meira sjálfræði og að það sé af hinu góða.
„Fólkið á gólfinu kann að reka þjónustuna sem það er að veita,” segir Steinunn.
Í ýmsum nágrannaríkjum Íslands, meðal annars Danmörku, tíðkast að heimilislæknar séu með meira sjálfræði en almennt gengur og gerist á Íslandi, en þar reka þeir gjarnan eigin stofur með samningi við ríkið. Spurð hvort að þetta sé eitthvað sem horfa megi til segir Steinunn:
„Í þessu samhengi tel ég mjög af hinu góða að bæði ábyrgðin á rekstrinum og ákvarðanirnar sem teknar eru um það hvernig hlutirnir séu reknir séu á höndum læknanna sjálfra. Það er mjög slæmt að bera ábyrgð en hafa engin völd yfir því hvernig hlutirnir eru gerðir.
Í Danmörku er einmitt mjög löng reynsla af því að læknar reki sjálfir heilsugæslur, og það kemur mörgum á óvart, að Ísland er eitt af þeim löndum í heiminum sem eru með minnst af einkarekstri í heilbrigðiskerfinu. Hlutfallslega er rosalega lítill einkarekstur hérna. Langmest af heilbrigðisþjónustu er af opinberri hendi og við erum með mjög miðstýrt kerfi. Þannig það að einkarekstur sé hérna vaðandi uppi er bara kolrangt.
Á meðan við gætum þess að allir hafi aðgang að þjónustunni óháð efnahag og að það séu gerðir samningar við þessa aðila af hálfu sjúkratrygginga þá sé ég ekki vandamálið við einkareksturinn.”
Í fyrrnefndum skoðanapistli á Vísi talaði Steinunn um að íslenska þjóðin hefði ef til vill sýnt einum of mikið langlundargeð og þolgæði þegar kemur að aðgengismálum í heilbrigðiskerfinu.
Spurð hvort hún telji meiri þrýsting þurfa frá almenningi til þess að stjórnvöld taki almennilega til hendinni málflokknum segir Steinunn svo vera.
„Ég tel klárlega að það þurfi meiri þrýsting. Nú erum við náttúrulega með tiltölulega nýja ríkisstjórn sem að hefur lagt áherslu á málefni heilsugæslunnar og ég vona að hún muni standa við þær áherslur og það kemur þá vonandi sem allra fyrst í ljós,” segir Steinunn og bætir við:
„Maður heyrir svo ofboðslega mikið frá fólki úti í bæ um alls konar erfiðleika við að fá þjónustu sem ætti bara að vera mjög einföld og hversdagsleg og maður er svolítið hissa á því að fólk skuli ekki láta meira í sér heyra.
Það eru einstaka einstaklingar sem gera það og þá er eftir því tekið. Ég held að fólk megi vera duglegra við það og þá bara taka undir með okkur.”
„Við viljum svo sannarlega veita betri þjónustu og geta sinnt ýmsu eins og forvörnum betur en við gerum í dag,” segir Steinunn að lokum.