Frá og með 28. maí munu þeir sem gert hafa hollvinasamning um sínar gömlu eignir í Grindavík einnig geta gist í þeim.
Um er að ræða tímabundið verkefni til reynslu í sumar. Markmiðið með því er að ýta undir að íbúar haldi tengslum við bæinn og um leið auka líkurnar á að fólk flytji aftur til Grindavíkur þegar það er talið öruggt.
„Frá því Þórkatla hóf að bjóða upp á hollvinasamninga hefur félagið fundið fyrir miklum áhuga hollvina á því að gista í eignunum. Sá áhugi hefur aukist jafnt og þétt en hingað til hefur ekki verið talið forsvaranlegt að leyfa gistingu. Í ljósi aðstæðna og þróunar í bænum hefur nú hins vegar verið tekin ákvörðun um að heimila hollvinum til reynslu að gista í eignunum yfir sumartímann, frá lok maí til loka september 2025,” segir í tilkynningu frá fasteignafélaginu.
Heimildin byggir á því að staðsetning, ástand og staða brunavarna sé með þeim hætti að óhætt sé fyrir fólk að dvelja í eigninni næturlangt. Innheimt verður umsýslugjald þegar samningur um gistingu í sumar er undirritaður.
Þórkatla hefur gengið frá kaupum á 943 eignum í Grindavík, tekið við 913 eignum og gengið frá afsali fyrir 904 eign í bænum, að því er kemur fram í tilkynningunni.
Heildarfjárfesting félagsins í þeim 943 eignum sem gengið hefur verið frá til þessa er 71,6 milljarðar króna. Þar af eru kaupsamnings- og afsalsgreiðslur um 50 milljarðar króna og yfirtekin húsnæðislán um 21,6 milljarðar króna.
Frestur einstaklinga til að sækja um sölu á íbúðarhúsnæði í Grindavík rann út 31. mars sl., en lög um framlengingu á frestinum til 30. júní næstkomandi eru í vinnslu hjá Alþingi.