Lögregla við það að glutra um 137 milljónum í fasteignaviðskipum

Lögregla innsiglaði Herkastalann og gerði kyrrsetningu upp á um 190 …
Lögregla innsiglaði Herkastalann og gerði kyrrsetningu upp á um 190 milljónir króna í mars í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt bendir til þess að ákvörðun Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu leiði til þess að vel á annað hundrað milljónir króna glutrist við sölu á Herkastalanum við Kirkju­stræti 2. Peningarnir töpuðust þegar lögregla ákvað að samþykkja ekki tilboð frá fasteignafélagi upp á rúman milljarð króna í fasteignina. 

Í framhaldinu fór Herkastalinn, sem var í eigu félags Quang Le, NQ fasteignir, á nauðungaruppboð og þar fengust 865 milljónir króna fyrir húsið. Sama fasteignafélag keypti eignina þar og hafði upphaflega gert tilboð sem samþykkt var af Quang Le. 

Ástæða þess að lögregla gætir hagsmuna þegar kemur að sölu á Herkastalanum helgast af því að hún kyrrsetti um 190 milljónir króna með veði í fasteigninni í mars í fyrra þegar aðgerðir tengdar starfsemi Quang Le fóru fram. Útlit er fyrir að lögregla fái um þrjár milljónir króna af sölunni í sína vörslu í stað 137 milljóna króna. 

Lögreglan þurfti að gefa eftir

Þegar kauptilboð upp á milljarð og tíu milljónir var samþykkt fyrr á árinu var það gert með fyrirvörum um fjármögnun en einnig þurfti til samþykki lögreglunnar vegna kyrrsetningarinnar sem hún veitti ekki. 

Hefði lögreglan samþykkt kaupin hefði hún þurft að gefa eftir tæpar 60 milljónir króna af kyrrsetningunni sökum þess að það var sú upphæð sem hvíldi á fasteigninni umfram virði hennar. Með öðrum orðum var eignin veðsett upp í botn auk þess sem áhvílandi voru tæpar 60 milljónir króna sem voru umfram tilboðsverðið.

Hefði lögregla gengið að tilboðinu hefði hún fengið 137 milljónir króna inn á vörslureikning hjá Sýslumanni. Þeir fjármunir hefðu eftir sem áður verið kyrrsettir. 

Frá aðgerðum lögreglu við Herkastalann á síðasta ári.
Frá aðgerðum lögreglu við Herkastalann á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögregla hafnaði hins vegar að ganga að tilboðinu. Fyrir vikið fór Herkastalinn á nauðungaruppboð þann 8. apríl og hæsta tilboð var 865 milljónir króna eða um 145 milljónum króna minna en upphaflega tilboðið hljóðaði upp á. Frestur til að taka hæsta boði rennur út 2. júní. Kunnugir segja að ólíklegt sé að annað tilboð berist áður en frestur er úti vegna umfangs viðskiptanna þó að það sé ekki útilokað. 

Þrjár milljónir eftir fyrir meint fórnarlömb 

Þegar tekið hefur verið tillit við kostnað við nauðungarsölu og annað standa að óbreyttu eftir um þrjár milljónir milljónir króna sem lögreglan fær í sína vörslu eftir söluna. Aðrir veðhafar, banki og útgefendur tryggingabréfa sem eru fyrr í veðréttarröðinni fá sinn hlut greiddan. 

Þetta þýðir það að ef lögregla ákærir Quang Le og málið endar með sakfellingu hans verða um þrjár milljónir króna til skiptanna fyrir t.a.m. meint fórnarlömb í málinu í stað þess að 137 milljónir verði til skiptanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »