Tónlistar- og myndlistarmaðurinn Pjetur Stefánsson sendi nýlega frá sér 15 laga plötu með hljómsveitinni PS&CO, Í brennandi húsi, og er hún aðgengileg á Spotify. Allir textar eru eftir Pjetur en Pálmi Gunnarsson er meðhöfundur eins þeirra. Lögin eru eftir Pjetur en í þremur þeirra eru Tryggvi Hübner og Sigurður Bjóla samhöfundar hans. Pjetur hannaði myndina á plötuumslaginu, en á næsta ári verða 50 ár frá fyrstu einkasýningu hans.
„Svo eru 40 ár liðin frá útgáfu plötunnar Í léttum dúr. Eitt laga plötunnar, „Ung og rík“, náði miklum vinsældum og varð eitt þekktasta rokklag síðustu aldar og kosið eitt af 10 bestu rokklögum síðustu aldar hjá RÚV,“ rifjar hann upp og bætir við að sjálfsagt sé að fagna 40 ára útgáfuafmæli með útkomu nýrrar plötu.
Pjetur hóf nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og útskrifaðist úr grafíkdeild og nýlistadeild 1984. Á námsárunum starfaði hann sem rótari hjá rokksveitinni Fryðrik sumarið 1980. „Söng stundum bakraddir, hristi tambúrínur og lamdi kúabjöllu,“ rifjar hann upp. Fyrir tveimur árum hafi hann staðið á tímamótum og þá fengið Tryggva Hübner, Pálma Gunnarsson og Pétur Hjaltested úr bandinu til að spila með sér á umræddri plötu. Sigurður Karlsson hafi ekki verið til taks en Sigfús Örn Óttarsson komið í staðinn. Síðan hafi Jakob Frímann Magnússon, Sigurður Bjóla, Jens Hansson, Sigurður Sigurðsson og Kolbeinn Agnarsson bæst í hópinn. „Það var einstaklega gaman að vinna að undirbúningi plötunnar,“ segir hann og áréttar að þetta sé ekki bandið Friðryk heldur PS&CO. „Magnaður mannskapur.“
Upptökur gengu vel og grunnarnir voru teknir upp á fimm tímum. Sigurður Bjóla setti inn raddir og hljóðblandaði verkið. „Óhætt er að segja að með hljóðblöndunni og frábærum hljóðfæraleikurum standi eftir heildstætt verk,“ segir Pjetur og bendir sérstaklega á lagið Herbergi hugans. „Það eitt að hljóðblanda þetta verk krefst einbeitingar og er þrekvirki því það er heilar 14:32 mínútur að lengd.“
Platan Í brennandi húsi hefst með samnefndu blúslagi, sem Pjetur segist hafa samið fyrir nokkrum árum. „Tilurð þess á sér stað í samofnu tráma í örlagavef fjölskyldna, ástar, vina og vináttu innan tónlistarinnar,“ segir hann. Fá öfl séu sterkari en reiðin, hún brjótist inn í daglegt líf og kalli á framkvæmdir. Fyrirgefningin sé eina leiðin til að vinna á gömlum trámum. Þá þurfi að skoða alla örlagaþræði vandlega. „„Í brennandi húsi“ er leið til að finna fyrirgefningu og upplifa frelsi í gegnum blúsformið,“ segir hann. „Ég hef verið án áfengis í 39 ár og það er það besta sem fyrir mig hefur komið. Textar á plötunni eru möntrur og áköll um betra líf. Blúsrokkið er gott form til að rækta andann.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.