„Þegar ég sá fram á að Flokkur fólksins færi í ríkisstjórn þá setti ég mig í samband við Ingu, við ræddum saman í þrígang og í framhaldi af því sendi ég henni umsókn,“ segir Ásgerður Jóna Flosadóttir formaður Fjölskylduhjálparinnar.
Hún hefur gagnrýnt félagsmálaráðherra fyrir að veita Fjölskylduhjálpinni ekki styrk og sér fram á að þurfa að loka. Inga Sæland upplýsti við Morgunblaðið í gær að Fjölskylduhjálpin hefði aldrei sótt um.
Spurð hvers vegna hún hafi ekki sótt um styrkinn á meðan umsóknarfrestur var enn í gildi segist Ásgerður einfaldlega ekki komast yfir allt sem þurfi að gera á skrifstofu Fjölskylduhjálparinnar. Hún hafi mikið á sinni könnu við það að halda starfseminni gangandi, og það hafi ekki skilað miklum árangri að leita eftir styrkjum frá hinu opinbera.
En þú þurftir að skila inn umsókn áður en Inga varð ráðherra.
„Ég er ekki með vaktmanneskju á styrkjavaktinni, er ein á skrifstofunni og kemst ekki yfir allt.“
Það er nú ekki eins og þú sért neinn nýgræðingur í þessu, búin að reka Fjölskylduhjálpina í 22 ár. Þú hlýtur að þekkja þetta styrkjafyrirkomulag?
„Ég hef fengið svo lítið af styrkjum frá hinu opinbera og oft fengið synjun, þannig að það hefur ekki verið efst á blaði hjá mér að fylgjast með styrkúthlutunum.“
Þú segist ekki hafa fengið mikið af styrkjum, en núna hótar þú að loka ef þú færð ekki styrk. „Ég er ekki að hóta neinu. Staðan er einfaldlega sú að við rekum starfsemina við mjög þröngar skorður og ég sé ekki fram úr því hvernig við eigum fyrir föstum kostnaði út þetta ár. Allur okkar búnaður er orðinn gamall og kominn á tíma. Ég stend frammi fyrir því að endurnýja búnað fyrir 20 milljónir á þessu ári og ég hef engin tök á að taka það út úr rekstrinum.“
Eftir ummæli félagsmálaráðherra í Morgunblaðinu í gær segist Ásgerður vona að Inga finni lausn. „Ef Inga vill leysa málið þá leysir hún málið. Hún er ráðherra. Að segja að það séu engir peningar til; ég blæs á það. Annað eins er nú bruðlað í stjórnkerfinu.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.