Borgarráð samþykkti í dag að ráðast í umfangsmikið átak til að fjölga leikskólaplássum í borginni um 162 og bæta á sama tíma aðstöðu starfsfólks í nokkrum leikskólum. Framkvæmdir munu kosta 2,1 milljarð króna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg en þar segir að undanfarin ár hafi verið unnið að því að fjölga leikskólaplássum í Reykjavík á sama tíma og endurnýjun og viðhald á leikskólahúsnæði borgarinnar hefur staðið yfir.
„Verkefnið „Brúum bilið“ heldur áfram og borgarráð samþykkti í dag að ráðast í stórt átak til að fjölga leikskólaplássum enn frekar. Byggðar verða 14 nýjar kennslustofur við sex leikskóla víðs vegar um borgina, ásamt tengibyggingum og lóðaframkvæmdum. Verkefnið mun skapa 162 ný leikskólapláss og bæta aðstöðu starfsfólks á nokkrum leikskólum,“ segir í tilkynningunni.
Leikskólarnir sem um ræðir eru Grandaborg, Hólaborg, Árborg, Jörfi, Maríuborg og Vesturborg en meðfram framkvæmdunum verða eldri og minni kennslustofur teknar úr notkun.
Heildarkostnaður við framkvæmdirnar er áætlaður 2,1 milljarður króna, þar af fara 150 milljónir í lóðaframkvæmdir. Með samþykkt borgarráðs verður hægt að hefja innkaupaferli vegna verkefnisins.