„Enginn í áskrift að embættum“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra segir að ástæða þess að Úlfari Lúðvíkssyni, fráfarandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, var tilkynnt um að staða hans yrði auglýst til umsóknar sé fyrirhuguð breyting á landamærapólitík.

Þannig verður embættið stækkað og verkefni munu breytast. Til stendur að setja á fót brottfarar- og komustöð. Í því skyni verður heimfaradeild lögreglustjóra færð til Suðurnesja.

„Verkefni embættisins er að taka töluverðum breytingum og að stækka töluvert. Ég fór því yfir það með lögreglustjóranum á Suðurnesjum að breytt verkefni og stækkun umfangs embættisins væri ástæða auglýsingar en ekki þannig að í því fælist einhver afstaða til hans starfa, nema síður væri,“ segir Þorbjörg.

Segir áherslur þeirra fara saman 

Úlfar hefur verið opinskár um vandamál á landamærunum. Spurð hvort eitthvað í orðum hans um þau málefni hafi haft áhrif á ákvörðun stjórnvalda um að setja hann til hliðar segir Þorbjörg svo ekki vera.

„Nei, alls ekki. Við höfum meðal annars lagt fram frumvarp sem skyldar flugfélög til að gefa upp farþegalista. Ég hef sömuleiðis lagt fram frumvarp um endurheimt fjárhagslegs ávinnings af skipulagðri brotastarfsemi. Þannig að ég hef verið að stíga afgerandi skref gegn skipulagðri brotastarfsemi. Þetta finnst mér undirstrika og ramma inn að þessi ákvörðun um að auglýsa embættið felur ekki í sér á nokkurn hátt afstöðu mína til Úlfars. Mér sýnist við ganga ágætlega hönd í hönd hverjar áherslurnar eru. Mér fannst bara eðlilegt að auglýsa stöðuna. Honum var velkomið að sækja um hana eins og öðrum. En það er enginn í áskrift að embættum,“ segir Þorbjörg.

Engin skoðanaskipti 

En er ekki eðlilegt að hann líti svo á að hann sé ekki æskilegur umsækjandi ef honum er tilkynnt um málið með þessum hætti?

Hann brást við með þessum hætti og ég get ekki annað en virt það,“ segir Þorbjörg.

Voru einhver skoðanaskipti á fundinum með Úlfari?

„Nei.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »