Fara verður með faglegri hætti yfir það hvort ásakanir á hendur sr. Friðriki Friðrikssyni, æskulýðsleiðtoga og stofnanda KFUM á Íslandi, um meint kynferðisafbrot eigi við rök að styðjast eða ekki.
Þetta er mat hóps Skógarmanna, sem á síðustu mánuðum hefur farið ofan í saumana á málinu sem komst í hámæli á árinu 2023 í kjölfar útgáfu ævisögu sr. Friðriks sem Guðmundur Magnússon blaðamaður skrásetti. Í bókinni var að finna frásögn aldraðs manns sem sagði sr. Friðrik hafa káfað á sér þegar sá síðarnefndi var orðinn hrumur og gamall.
Í kjölfar útgáfu bókarinnar varð uppi mikið fjaðrafok og var meðal annars ráðist í að fjarlægja styttu af sr. Friðriki sem staðið hafði áratugum saman ofan við Lækjargötu í Reykjavík. Þá auglýsti KFUM eftir fleiri fórnarlömbum sr. Friðriks og var sr. Bjarna Karlssyni og sálfræðingnum Sigrúnu Júlíusdóttur falið að fara ofan í saumana á málinu.
KFUM hefur ekki viljað birta opinberlega niðurstöður tvímenninganna en Morgunblaðið hefur þær undir höndum. Þar er að finna frásögn manns sem segir sr. Friðrik hafa þuklað eistu sín innanklæða þegar hann var „10 eða 11 ára“ og að það hafi verið gert undir þeim formerkjum að kanna „hvort hann yrði góður knattspyrnumaður.“ Sr. Friðrik var sem kunnugt er stofnandi íþróttafélaganna Vals og Hauka.
Í skýrslu tvímenninganna er að öðru leyti ekki að finna fleiri lýsingar frá fyrstu hendi en þar er að finna frásögn eftirlifandi eiginkonu, frásögn dóttur manns sem sagði farir sínar ekki sléttar og eins frá ónefndum samskiptaráðgjafa í íþrótta- og æskulýðsstarfi sem hafði fengið í hendur frásögn uppkominna barna látins manns sem orðið hefði fyrir „markaleysi“ af hálfu sr. Friðriks sem hafi haft neikvæð áhrif á líf hans.
Svo virðist sem rannsakendur KFUM hafi borið minna úr býtum en þau bjuggust við í kjölfar þess að auglýst var eftir fórnarlömbum. Í niðurstöðum sínum segja þau: „Ljóst er að rannsóknarefnið sem við fengum í hendur í framhaldi af fjölmiðlaumfjöllun og auglýsingu í Morgunblaðinu og varðar meint brot séra Friðriks gagnvart ungum drengjum er rýrt.“
Séra Bjarni og Sigrún óskuðu einnig eftir því við Guðmund Magnússon að hann kæmi þeim skilaboðum til heimildarmanns síns að þau hefðu áhuga á að ræða við hann um þau meintu brot sem hann lýsti samkvæmt bókinni. „Þolandinn hefur ekki haft samband,“ segja þau í umfjöllun sinni um þær ásakanir sem raunar urðu kveikjan að málinu öllu.
Þrátt fyrir það er dómur þeirra skýr: „Niðurstaða okkar af eigin gögnum og ofangreindum heimildum er sú að meiri líkur en minni séu á að háttsemi séra Friðriks hafi í sumum tilvikum farið yfir kynferðisleg velsæmismörk gagnvart ungum drengjum og valdið þeim skaða.“
Þessi skýrsla var borin undir Jón Magnússon í viðtali á vettvangi Spursmála og hann beðinn að leggja mat á efni hennar. Virtist efni hennar og innihald koma honum á óvart. Segir hann þó með ólíkindum að sr. Bjarni og Sigrún hafi komist að þeirri niðurstöðu að meiri líkur en minni hafi verið á að sr. Friðrik hafi brotið á drengjunum.
Segir hann að hafa verði í heiðri þá meginreglu réttarríkisins að menn séu saklausir uns sekt þeirra sé sönnuð.
Jón segir að málsmetandi menn innan KFUM hafi komið þeim skilaboðum skýrt á framfæri við KFUM að taka þurfi málið upp að nýju og skoða það með hlutlægum hætti. Þar þurfi einnig að tryggja að sr. Friðriki sé tryggður málsvari, þar sem hann geti af augljósum ástæðum ekki tekið til varna sjálfur.
Viðtalið við Jón Magnússon má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: