Ríkisvaldið hefur aðeins eitt markmið með skattlagningu og það er að afla tekna. Þetta fullyrðir Sigríður Á. Andersen sem blæs á hugmyndir um að hækkun veiðigjalda sé siðferðisspursmál.
Þetta kemur fram í nýjasta þætti Spursmála þar sem hún og Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins eru meðal annars spurðar út í þá fullyrðingu Gríms Grímssonar, þingmanns Viðreisnar, að það felist í því siðferðisleg krafa að veiðigjöld séu tvöfölduð á útgerðarfyrirtæki landsins.
„Markmið með sköttum, hvort sem þeir heita auðlindagjald, tekjuskattur, erfðafjárskattur eða hvað það er er að afla ríkinu tekna. Það er eina markmiðið með sköttunum. Menn laga ekki siðferðið með sköttum nema síður sé. Það er bara mjög afmarkað hlutverk sem skattar gegna í okkar samfélagi og við getum haft skoðun á því hvort skattar séu góðir eða vondir en þetta er hlutverkið,“ segir Sigríður.
Og hún segir að það þurfi því miður að benda þingmönnum á þetta. Ýmsar ranghugmyndir séu uppi um það hvaða hlutverki skattar gegni.
„Og það þurfti að benda þingmönnum á það að það eru ekki til einhverjir markaðir tekjustofnar í þessu tilviki, að þetta færi sérstaklega í vegi og við höfum einmitt dæmi um það að aukin skattheimta fer einmitt ekki í vegi. Og þetta er einmitt það sem við erum að kalla eftir í þinginu að það verði metið og sýnt með einhverjum betri spilum hvort að þessi skattlagning auki raunverulega tekjur ríkisins til þess að hægt verði að byggja vegi og ýmislegt annað sem kallað verður eftir. Og þessir útreikningar liggja ekki fyrir. Þannig að markmiðið með þessu er alls ekki það sem margir þingmenn halda,“ segir Sigríður.
Hildur segir mikilvægt að ná sátt milli sjávarútvegsins sem er ein mikilvægasta atvinnugrein landsins og almennings í landinu. Það verði hins vegar ekki gert með einföldum frösum sem hafi þó verið mjög áberandi í umræðunni upp á síðkastið.
Viðtalið við Sigríði og Hildi má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: