Fjöldi lögreglumanna tók þátt í umfangsmikilli eftirför og handtöku við Klapparstíg í miðbæ Reykjavíkur síðdegis í dag. Á ljósmyndum frá vettvangi handtökunnar má sjá hlut sem líkist hníf.
Illa hefur gengið að fá samband við viðeigandi lögreglustöð vegna málsins en aðstoðaryfirlögregluþjónn rannsóknardeildar segir við mbl.is að málið hafi ekki ratað á sitt borð, að minnsta kosti ekki að svo stöddu.
Í dagbók lögreglu er reyndar greint frá eftirför lögreglu í hverfi 101 í dag. Þegar ökufanturinn hafi loks stöðvað bifreiðina hafi hann hlaupið undan lögreglu, sem hafi fljótlega haft upp á honum.
„Ökumaður var handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Hann reyndist undir áhrifum ávana- og fíkniefna og var vistaður í fangaklefa vegna málsins,“ segir í dagbók lögreglu þar sem greint er frá málum milli kl. 5 til 17, en óljóst er hvort um sama mál sé að ræða.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu kannaðist heldur ekki við málið þegar mbl.is hafði samband.
Veistu meira? Þú getur sent okkur myndir og ábendingar á netfangið [email protected]