Flügger sakað um að selja málningu í Rússlandi

Danska málningarfyrirtækið Flügger er til rannsóknar hjá lögreglu vegna gruns um að hafa brotið gegn viðskiptaþvingunum sem settar voru á Rússa í kjölfar innrásar í Úkraínu. 

Danska lögreglan sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fram kemur að framkvæmdar hefðu verið þrjár húsleitir í Kaupmannahöfn og að tveir einstaklingar hefðu verið handteknir. 

Danski ríkismiðillinn DR segir frá. 

„Málið snýr að mögulegri sniðgöngu dansks fyrirtækis á þvingunum gegn Rússlandi,“ segir í yfirlýsingu frá lögreglunni en DR hefur heimildir fyrir því að umrætt fyrirtæki sé Flügger.

Flügger undir smásjá lögreglu

Stjórnendur fyrirtækisins bera af sér allar sakir en segja fyrrum starfsmann þess í Rússlandi bera ábyrgð á sölu á málningunni í Rússlandi.

„Við höfum yfirgefið Rússland og stefna okkar er skýr: Við viljum ekki hafa nein tengsl við þann markað,“ segir Sune Schnack, forstjóri Flügger.

„Það er því algjörlega óásættanlegt að málning okkar skuli enn vera seld þar – án okkar vitundar.“

Flügger segir að samstarf við fyrrverandi rússneskan dreifingaraðila, Aleksej Popov, hafi verið rofið í apríl 2022. Þrátt fyrir það hefur Popov haldið því fram að hann starfi fyrir Flügger og selji áfram vörur fyrirtækisins í Rússlandi.

Sala í Rússlandi þrátt fyrir bann

Rannsókn DR hefur leitt í ljós að málning frá Flügger er enn fáanleg í verslunum víðs vegar um Rússland. Þrátt fyrir að sala slíkra vara hafi verið bönnuð frá tilkomu viðskiptaþvingana af hálfu ESB í nærri þrjú ár.

Í umfjöllun DR kemur fram að Popov hafi kynnt sig sem fulltrúa Flügger í Rússlandi en stjórnendur fyrirtækisins telja að málningin hafi verið flutt til Rússlands í gegnum dreifingaraðila í löndum á borð við Kasakstan, Eistland.

Segja stjórnendur í fréttatilkynningu að samstarfi við þessa dreifingaraðila hafi verið hætt. Þá kemur jafnframt fram í yfirlýsingu að Flügger vinni með yfirvöldum til að upplýsa málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »