Friedrich Merz Þýskalandskanslari sagði í gær að Rússland væri ógn við öryggi allra Evrópuríkja og að Þjóðverjar væru staðráðnir í að verja bandamenn sína.
Ummæli Merz féllu í Vilníus, höfuðborg Litáen, en þar var haldin sérstök athöfn til þess að setja formlega á fót fyrstu herstöð þýska hersins utan landamæra Þýskalands frá árinu 1945.
Þar verður nú 45. skriðdrekastórfylki þýska hersins staðsett, en það mun telja um 4.800 hermenn undir vopnum og um 200 borgaralega starfsmenn þýska hersins þegar það hefur náð fullum styrk árið 2027. Nú þegar eru um 400 þýskir hermenn í landinu til þess að undirbúa jarðveginn.
Er herliðinu þýska ætlað að auka fælingarmátt Atlantshafsbandalagsins gegn mögulegri innrás Rússlands í Eystrasaltsríkin. „Okkur stafar öllum ógn frá Rússlandi,“ sagði Merz við blaðamenn í Vilníus og ítrekaði að öryggisþarfir Eystrasaltsríkjanna og öryggisþarfi Þýskalands færu saman.
„Hver sem vill ögra NATO verður að vita að við erum reiðubúin. Hver sem hótar hvaða bandamanni verður að vita að bandalagið allt mun verja saman sérhvern þumlung af landsvæði NATO,“ sagði Merz einnig. Gitanas Nauseda froseti Litáen tók einnig þátt í athöfninni og fagnaði hann þeim mikla styrk sem fælist í bandalaginu við Þjóðverja og að ríkin tvö myndu í sameiningu tryggja að þau þyrftu ekki að horfast í augu við stríð.
Þýska varnarmálaráðuneytið telur að Litáen sé í mestri hættu af aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins á austurvæng þess, en landið á landamæri að bæði Hvíta-Rússlandi og Kaliníngrad-héraði Rússlands. Boris Pistorius varnarmálaráðherra sagði í síðasta mánuði að þýska stórfylkið myndi senda sterk skilaboð um einingu bandalagsríkjanna og viðbúnað.
Athöfnin í gær var haldin á sama tíma og bandalagsríki á borð við Eystrasaltsríkin og Pólland hafa lýst yfir áhyggjum sínum af síaukinni ágengni Rússa, sem birtist m.a. í svonefndum fjölþátta ógnum og skemmdarverkum sem unnin hafa verið víðsvegar í ríkjum Evrópu á síðustu árum.
Ná þau skemmdarverk m.a. til Eystrasaltsins, en þar hefur nokkuð borið á því undanfarin misseri að neðansjávarkaplar og sæstrengir hafi skemmst af mannavöldum. Pólsk stjórnvöld greindu frá því í fyrradag að þau hefðu haft afskipti af olíuflutningaskipi, sem sagt er tilheyra hinum svonefnda „skuggaflota“ Rússa, en það var að hringsóla grunsamlega í nánd við rafmagnskapal sem tengir Pólland og Svíþjóð.
Þá tilkynnti Evrópusambandið á þriðjudaginn að það hefði gripið til refsiaðgerða gegn ýmsum rússneskum aðilum sem sambandið sagði að bæri ábyrgð á ýmsum skemmdarverkum og öðrum fjölþátta aðgerðum í Evrópu. Voru þar m.a. settir á svartan lista aðilar sem ESB sagði að hefðu reynt að trufla gps-merki við Eystrasaltið eða tekið þátt í að skemma sæstrengina. Þá var vefhýsingarþjónusta sett á svartan lista, en ESB sagði að fyrirtækið hefði tekið þátt í að dreifa upplýsingaóreiðu og liðkað fyrir netárásum.
Finnsk stjórnvöld sögðu svo í gær að þau fylgdust grannt með hreyfingum rússneska hersins í nágrenni við landamæri sín, en bandaríska dagblaðið New York Times birti á dögunum gervihnattamyndir, sem virtust sýna stórfellda uppbyggingu á hernaðarmannvirkjum Rússa í nágrenni við Finnland og Eystrasaltsríkin.
Finnski herinn sagði við AFP-fréttastofuna í gær að Rússar væru að byggja herstöðvar og aðra innviði fyrir her sinn og að tilgangurinn væri að fjölga í herliði Rússa við landamærin eftir að stríðinu í Úkraínu lyki.
Varnarmálaráðherra Finnlands, Antti Häkkänen, sagði svo í sérstakri yfirlýsingu til AFP-fréttastofunnar að Finnar væru ásamt bandamönnum sínum að fylgjast mjög náið með aðgerðum og fyrirætlunum Rússa í nágrenni sínu. Sagði Häkkänen að viðleitni Rússa til þess að styrkja herafla sinn kæmi Finnum ekki á óvart.
Finnar gengu til liðs við Atlantshafsbandalagið árið 2023 eftir áratugalangt hlutleysi í varnar- og öryggismálum vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Sagði Häkkänen að Finnar ásamt bandamönnum sínum hefðu sterka stöðu, og að varnir Finnlands, sem byggjast á herskyldu og öflugu varaliði væru traustar. „Samfélag okkar allt hefur fjárfest mikið í að vera undirbúið fyrir alls kyns truflanir og krísur,“ sagði Häkkänen.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.