Brian Eno, tónlistarmaður og höfundur opnunarstefs Windows 95-stýrikerfisins, segir tölvurisann Microsoft samsekan þegar kemur að framgöngu Ísraelsríkis gagnvart Palestínu sem hann lýsir sem stríðsglæpum.
Þetta kemur fram í opnu bréfi Eno til Microsoft sem birtist á vef DiEM25 fyrr í dag.
Eno hefur átt góðu gengi að fagna í gegnum árin á sviði rokk- og raftónlistar. Hann er talinn brautryðjandi í raftónlist og er oft kallaður afi ambient-stefnunnar.
Meðal merkra afurða hans í tónlistarheiminum er stefið sem hann samdi fyrir Windows 95-stýrikerfi Microsoft og milljónir, ef ekki milljarðar, hafa heyrt síðan.
Eno segist hafa notið samskipta við tengiliði sína innan fyrirtækisins, en að hann hefði ekki órað fyrir því að sama fyrirtæki myndi einhvern tímann taka þátt í kúgun og stríði.
„Í dag sé ég mig knúinn til að tjá mig. Ekki sem tónskáld í þetta sinn, heldur sem almennur borgari sem hefur áhyggjur af hlutverki Microsoft á öðru sviði – sviði eftirlits, ofbeldis og eyðileggingar í Palestínu“.
Hann segir Microsoft hafa gengist við því í bloggfærslu frá 15. maí 2025 að hafa séð varnarmálaráðuneyti Ísraels fyrir hugbúnaði, sérfræðiþjónustu o.fl. og að í sömu færslu sé tekið fram að Microsoft hafi ekki yfirsýn yfir hvernig búnaðurinn sé notaður.
Eno segir að það sé engu að síður á ábyrgð Microsoft að starfa með ríki sem af lögfræðingum, mannréttindasamtökum, og í auknum mæli ríkisstjórnum víðs vegar um heim sé sagt fremja þjóðarmorð.
„Það að selja og miðla þróaðri gervigreind og tækniþjónustu áfram til ríkisstjórnar sem framkvæmir kerfisbundnar þjóðernishreinsanir er meira en „hefðbundin viðskipti“. Ef þú smíðar vísvitandi kerfi sem stuðla að stríðsglæpum verður þú óhjákvæmilega samsekur í þeim glæpum. Við lifum á tímum þar sem fyrirtæki á borð við Microsoft eru umsvifameiri en ríkisstjórnir. Ég trúi því að með slíku valdi fylgi algjör siðferðisleg skylda.“
Eno hvetur Microsoft til að hætta með alla þá þjónustu sem styður brot gegn alþjóðalögum.
Hann hrósar starfsmönnum Microsoft sem látið hafa í sér heyra og lýkur bréfinu með því að hvetja listamenn, tæknifrömuði, tónlistarmenn og „fólk með samvisku“ til að taka undir ákallið. „Megi þetta stef hljóma sem hljóð raunverulegra breytinga," bætir hann við um Windows 95-stefið.