Rússnesk yfirvöld eru ábyrg fyrir því að skjóta niður farþegaflugvél Malaysia Airlines yfir austurhluta Úkraínu í júlí 2014. Þetta kemur fram í úrskurði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar en BBC greinir frá.
Allir 298 farþegarnir og áhöfn um borð í flugvélinni létust þegar hún var skotin niður af rússnesku flugskeyti en hingað til hafa yfirvöld í Rússlandi neitað allri ábyrgð.
Í gær greiddi ráð Alþjóðaflugmálastofnunarinnar atkvæði þess efnis að rússneska ríkið hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt alþjóðlegum fluglögum, sem krefjast þess að ríki „forðist að beita vopnum gegn almennum loftförum á flugi“.
Flug MH17 á vegum Malaysia Airlines var á leið frá Amsterdam til Kúala Lúmpúr þegar vélin var skotin niður yfir Donbas-héraði i Úkraínu árið 2014. Á þeim tíma geisuðu þar átök milli Rússlandssinna og úkraínska hersins.
Meirihluti farþega og áhafnar, 196 manns, var frá Hollandi en einnig voru um borð 38 manns frá Ástralíu, tíu breskir ríkisborgarar, auk belgískra og malasískra ríkisborgara.
Málið var lagt fyrir Alþjóðaflugmálastofnunina árið 2022 af áströlskum og hollenskum stjórnvöldum sem hafa nú fagnað úrskurðinum.
„Við skorum á Rússland að horfast loksins í augu við ábyrgð sína á þessu hræðilega ofbeldisverki og bæta fyrir framferði sitt,“ sagði Penny Wong, utanríkisráðherra Ástralíu, í yfirlýsingu.
Caspar Veldkamp, utanríkisráðherra Hollands, sagði að þetta væri „mikilvægt skref í átt að því að staðfesta sannleikann og ná fram réttlæti og ábyrgð“.
Hann bætti við að þetta sendi skýr skilaboð til alþjóðasamfélagsins um að „ríki geti ekki brotið alþjóðalög refsilaust“.
Árið 2022 úrskurðaði hollenskur dómstóll að hópur undir stjórn Rússa hefði skotið flugvélina niður og tveir Rússar og einn Úkraínumaður sem er hliðhollur rússneskum stjórnvöldum voru sakfelldir fyrir morð.
Þremenningarnir voru allir dæmdir í lífstíðarfangelsi en þar sem þeir voru staddir í Rússlandi og ekki framseldir hafa þeir ekki afplánað dóm sinn.