Trump íhugar að vera viðstaddur fundinn

Trump hvatti Úkraínumenn til að samþykkja boð Pútín um beinar …
Trump hvatti Úkraínumenn til að samþykkja boð Pútín um beinar samningaviðræður. AFP/Jim Watson

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, íhugar að fljúga til Tyrklands til að vera viðstaddur mögulegan fund Volodimír Selenskí Úkraínuforseta og Vladmír Pútín Rússlandsforseta í Istanbúl á fimmtudag. Hann telur að Rússar muni samþykkja 30 daga vopnahlé.

„Ég er að hugsa um að fljúga þangað. Það er möguleiki á því, hugsa ég, ef ég tel líkur á að eitthvað gerist,“ sagði Trump við blaðamenn fyrr í dag. Hann hafði áður hvatt Úkraínumenn til að samþykkja tillögu Pútín um beinar viðræður.

„Ég held að fundur Rússa og Úkraínumanna í Tyrklandi á fimmtudag geti skilað jákvæðum niðurstöðum, og ég geri ráð fyrir að báðir leiðtogarnir mæti,“ sagði Trump jafnframt.

Lagði til beinar samningaviðræður

Pútín lagði það til í ræðu í Kreml í gærmorgun að bein­ar samn­ingaviðræður á milli Rúss­lands og Úkraínu yrðu haldn­ar í Ist­an­búl á næstu dög­um. Hann minnt­ist þó ekk­ert á tillögu Evrópuríkja um 30 daga vopnahlé, sem hefði þá átt að hefjast í dag.

Selenskí þáði boð Pútíns og skrifaði í færslu á samfélagsmiðlinum X að hann biði eftir löngu og varanlegu vopnahléi.

Trump var spurður út í það hvort hann myndi beita Rússa refsiaðgerðum ef Pútín samþykkti ekki 30 daga vopnahlé. Hann svaraði því ekki beint en sagðist hafa þá tilfinningu að Rússar myndu samþykkja það.

Recep Tayyip Er­dog­an, for­seti Tyrk­lands, sagði í gær að „sögu­leg­um vendipunkti“ væri náð í að binda enda á innrásarstríð Rússa og að Tyrkland væri tilbúið að hýsa viðræðurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka
OSZAR »