Segir „sögulegum vendipunkti“ náð

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti á blaðamannafundi í Róm á Ítalíu …
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti á blaðamannafundi í Róm á Ítalíu í apríl. AFP/Alberto Pizzoli

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir að „sögulegum vendipunkti“ hafi verið náð í viðleitni til að binda enda á stríðið milli Rússlands og Úkraínu. Tyrkland er tilbúið að hýsa viðræður milli ríkjanna.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði í morgun að hann væntist þess að yfirvöld í Kreml myndu skuldbinda sig til 30 daga vopnahlés og bætti við að Úkraínumenn væru tilbúnir til að mæta Rússlandi í beinum viðræðum um frið ef vopnahléð verður að veruleika.

Ummæli hans komu í kjölfar þess að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, lagði til beinar samningaviðræður við Úkraínu þann 15. maí í Istanbúl á Tyrklandi en hann minntist ekkert á tillöguna um 30 daga vopnahlé.

Erdogan fagnaði yfirlýsingu Pútíns um að friðarviðræður ættu að hefjast á ný í Istanbúl í símtali við Pútín í dag, að því er skrifstofa Tyrklandsforseta tilkynnti.

Erdogan segir að „tækifæri hafi skapast til að ná friði og að með því að ná alhliða vopnahléi myndi skapast nauðsynlegt umhverfi fyrir friðarviðræður.“

Emmanuel Macron Frakklandsforseti í Kænugarði í Úkraínu í gær.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti í Kænugarði í Úkraínu í gær. AFP/Genya Savilov

Erdogan ræddi við Frakklandsforseta

Erdogan ræddi einnig símleiðis við Emmanuel Macron, forseta Frakklands, í dag.

Í símtalinu sagði Erdogan við Macron að „sögulegum vendipunkti hefði verið náð í viðleitni til að binda enda á stríðið milli Úkraínu og Rússlands, að grípa yrði þetta tækifæri og að Tyrkland væri reiðubúið að veita hvers kyns stuðning, þar á meðal að hýsa samningaviðræður, til að ná vopnahléi og varanlegum friði,“ að sögn forsetaskrifstofu Tyrklands.

Yfirvöld í Frakklandi hafa staðfest að símtalið milli leiðtoganna tveggja hefði átt sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »