Indverjar og Pakistanar hafa nú í kvöld skipst á eldflaugaárásum. Pakistanski herinn sakaði fyrr í kvöld Indverja um að hafa skotið eldflaugum á þrjá af herflugvöllum sínum, en þar af var einn í nágrenni Islamabad, höfuðborgar Pakistans.
Ahmed Sharif Chaudhry, undirhershöfðingi og talsmaður pakistanska hersins, sagði að Indverjar hefðu skotið eldflaugum á bækistöðvar Pakistana í Nur Khan, Murid og Shorkot. „Nú skuluð þið bara bíða eftir svari okkar,“ sagði Chaudhry og beindi orðum sínum til Indlands.
Nur Khan-herflugvöllurinn er í Rawalpindi, en þar eru jafnframt höfuðstöðvar pakistanska hersins. Er bækistöðin um 10 kílómetrum frá Islamabad.
Stjórnvöld í Pakistan hafa nú lokað lofthelgi landsins fram til kl. 7 að morgni laugardags að íslenskum tíma, og sögðu ríkisfjölmiðlar þar í landi nú um miðnætti að íslenskum tíma að svar Pakistana við árásum Indverja væri hafið.
Munu Pakistanar m.a. hafa skotið eldflaugum í átt að borgunum Amritsar í Punjab-héraði og Jammu í Kasmír.
Ríki heims hafa hvatt bæði Indverja og Pakistana til þess að sýna stillingu, en bæði ríki búa yfir kjarnorkuvopnum.
Óvíst er um framhald átakanna, en greint var frá því í gær að indversk herskip með ofurhljóðfráum stýriflaugum hefðu siglt nær Pakistan á síðustu dögum og gætu þau m.a. reynt að ráðast á Karachi, stærstu hafnarborg Pakistans. Slík árás gæti haft gríðarleg áhrif á efnahag Pakistana, og myndi því kalla á viðbrögð frá Pakistan.