Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur lýsti verulegri óánægju með fyrirætlanir Bandaríkjamanna um að leggja meiri áherslu á njósnastarf á Grænlandi.
Washington Post greindi frá því fyrr í vikunni að bandarískar leyniþjónustur hefðu fengið skipanir um að afla frekari upplýsinga um sjálfstæðishreyfingu Grænlands og skoðanir Grænlendinga á nýtingu Bandaríkjanna á auðlindum.
Að því er heimildir miðilsins herma áttu leyniþjónusturnar að hafa uppi á fólki á Grænlandi og í Danmörku sem styddi markmið Bandaríkjanna.
„Auðvitað geturðu ekki njósnað um bandalagsríki,“ sagði Frederiksen við blaðamenn í Ósló, þar sem hún sækir leiðtogafund Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (Joint Expeditionary Force – JEF). Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sækir þann fund einnig.
Frederiksen tók fram að Lars Lokke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, hefði þegar rætt við Bandaríkin um málið. Þá sagði hún umfjöllun miðlana aðeins byggja á „orðrómi“.
Í gær var fulltrúi bandaríska sendiráðsins í Danmörku, Jennifer Hall Godfrey, kölluð á fund danska utanríkisráðuneytisins.
„Við munum ekki láta það líðast að fólk njósni um hvert annað. Þeim skilaboðum var komið skýrt á framfæri í dag,“ sagði Lokka við danska ríkismiðilinn í gær.
„Njósnir í Nuuk af hálfu Bandaríkjanna eru algjörlega óásættanlegar. Það væri vanvirðing,“ sagði Jens-Frederik Nielsen, nýr formaður grænlensku landsstjórnarinnar.
Spennan milli Bandaríkjanna og Danmerkur hefur stigmagnast samhliða því sem Donald Trump Bandaríkjaforseti heldur því fram að hann vilji taka yfir Grænland.
Hefur forsetinn haldið því statt og stöðugt fram að Bandaríkin þurfi að taka yfir landið sökum öryggisástæðna.