Sönghátíð í Hafnarborg hefur fyrir margt löngu fest sig kirfilega í sessi sumartónlistarhátíða á Íslandi. Þannig fer hátíðin nú fram í níunda sinn en hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2020 og skal engan undra.
Þar hafa margir af fremstu sönglistamönnum landsins komið fram og er hátíðin í ár þar engin undantekning.
Sunnudaginn 15. júní síðastliðinn kom Mótettukórinn fram á hátíðinni á tónleikum sem báru yfirskriftina Það var eitt kvöld. Þar er vísað í ljóðlínu Jóns Helgasonar frá árinu 2025: „Það var eitt kvöld að mér heyrðist hálfvegis barið / ég hlustaði um stund og tók af kertinu skarið / ég kallaði fram og kvöldgolan veitti mér svarið: / Hér kvaddi Lífið sér dyra og nú er það farið.“ Hér er dýrt kveðið, rétt eins og í öðrum kvæðum sem sungið var við á tónleikunum. Efnisskrá þeirra var að þessu sinni að mestu leyti helguð vorkomu og sumri.
Mótettukórinn þarf vart að kynna. Hann var stofnaður árið 1982 og hefur um áratugaskeið verið meðal fremstu kóra landsins. Kórinn var upphaflega stofnaður sem kirkjukór Hallgrímskirkju og starfaði sem slíkur til ársins 2021 en hefur starfað á eigin vegum síðastliðin fjögur ár.
Hörður Áskelsson var lengst af stjórnandi kórsins en í Hafnarborg var það Stefan Sand sem stjórnaði. Á tónleikunum voru kórfélagar alls 30 talsins, þar af tveir þriðju hluti konur. Það er ekki ósvipað hlutfall og í öðrum blönduðum kórum hér á landi.
Það var greinilegt frá fyrstu töktum sem Mótettukórinn söng í Hafnarborg að stjórnandinn, Stefan Sand, leggur áherslu á einkar skýran textaframburð og frásögn auk dýnamíkur. Þannig einkenndist söngur kórsins af ljómandi góðum textaframburði og túlkunin fór ýmist frá hinu ofurveika (pianississimo) yfir í kraftmikinn flutning (fortissimo).
Það var hins vegar sama í hvaða styrkleika kórinn söng; texti var alltaf skýr og í því ljósi var túlkunin til fyrirmyndar. Þessu til viðbótar fékk túlkun verka sem sungin voru í Hafnarborg að þessu sinni alltaf að anda og oftast var söngurinn einkar hreinn (það er að segja góð intónasjón). Það er ekki lítið afrek í ljósi þess að hluti tónleikanna var sunginn í blandaðri uppröðun eða meðal annarra orða, raddir stóðu framan af tónleikunum ekki saman og gerir það meiri kröfur til kórfélaga að kunna sinn part vel.
Efnisskráin var sett saman af mikilli þekkingu. Um var að ræða stutt kórverk frá Norður-Evrópu sem öll voru flutt án undirleiks (a cappella). Kórinn reið á vaðið með góðum flutningi á verki Hildigunnar Rúnarsdóttur (f. 1964) við kvæði Þorsteins Valdimarssonar, Vorlauf. Þá tóku við tvö kórverk eftir Sven-David Sandström (1942-2019) annars vegar og Benjamin Britten (1913-1976) hins vegar.
Sandström samdi verk sitt við texta eftir William Blake, To See a World, en Britten við fornan enskan texta. Breiddin í túlkun á kórverki Sandströms var mikil og raunar má segja það sama um Britten en þar var um eina trúarlega verk tónleikanna að ræða.
Fyrir hlé söng svo Mótettukórinn átta stutt kórverk eftir Wilhelm Peterson-Berger (1867-1942) við texta fjögurra skálda, þar af voru fimm þeirra við texta eftir Björnstjerne Björnson. Um var að ræða bæði kórverk í rólegri kantinum (til að mynda Stemning við texta Jens Peters Jacobssen) og svo einkar rytmísk og fjörugri verk (til að mynda I Fyrreskoven við texta Helenu Nyblom).
Öll verkin átta voru vel flutt. Breiddin í túlkun var mikil (allt frá ofur veikum söng upp í mjög sterkan) og öndun milli hendinga var góð. Aftur vil ég líka hrósa kórnum fyrir skýran textaframburð.
Eftir hlé söng Mótettukórinn þrjú stutt kórverk (Drei Gesänge) eftir Johannes Brahms (1833-1897). Þau bera sterk einkenni rómantíska tímabilsins en hér bar aðeins á viðkvæmni á efstu tónum, einkum í Vineta við kvæði Wilhelms Müller. Aftur á móti var breiddin í styrkleika mikil, ekki síst í Darthulas Grabegesange við kvæði Ossians von Herder.
Efnisskránni lauk svo á fimm verkum, þar af fjórum eftir íslensk tónskáld. Flutningur á Vorvísu eftir Jón Ásgeirsson (f. 1928) við kvæði Halldórs Laxness og Afmorsvísu eftir Snorra Sigfús Birgisson (f. 1954) við kvæði Páls Jónssonar Vídalín heppnaðist vel og kórinn söng brosandi.
Þá var Kvöldvers eftir Tryggva M. Baldvinsson (f. 1965) við kvæði Hallgríms Péturssonar gríðarlega vel af hendi leyst með mikilli stígandi og hér var um besta söng kórsins á tónleikunum að ræða (og besta kórverkið líka, það er að segja ef einhver spyr mig). Vorvísa eftir Mogens Schrader (1894-1935) við kvæði Tómasar Guðmundssonar var sungin vel í útsetningu Gunnars Reynis Sveinssonar (1933-2008) en þó kannski ívið of hratt.
Tónleikunum lauk svo á blíðu kórverki Úlfars Inga Haraldssonar (f. 1966) við kvæði Jóns Helgasonar, Það var eitt kvöld. Kórinn gekk svo úr salnum á meðan hann endurtók lagið en að þessu sinni með því að humma í stað þess að syngja textann.
Eins og að ofan greinir hefur Mótettukórinn verið í hópi fremstu kóra á Íslandi um árabil og hann er það enn. Á því leikur enginn vafi. Karlaraddir hans eru vissulega undirmannaðar en í flestum verkanna bar minna á því en giska mætti á miðað við fjölda í kvenröddum annars vegar (20) og karlaröddum hins vegar (10).
Ég vil líka ítreka að textaframburður var eins og best verður á kosið og flutningurinn einkenndist þannig af frásögn. Það er vel og ekki öllum gefið.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.