„Við munum byrja með alveg óskrifað blað, semja þá tónlist á ferðalaginu sem við ætlum að spila á hverjum tónleikum. Við byrjum alveg impróvíserað, en svo verður músíkin til í umhverfinu og á ferðalaginu,“ segir Óskar Guðjónsson saxófónleikari um tríó, skipað honum, hinum danska Jakob Bro gítarleikara og Skúla Sverrissyni bassaleikara, sem ætlar að fara í vikuferðalag um Ísland til að semja nýja tónlist undir áhrifum frá nokkrum ólíkum stöðum á landinu. Þetta eru Keflavík, Stykkishólmur, Djúpavík og Siglufjörður, og þeir ætla að dvelja daglangt á sumum stöðum en vera nokkra daga á öðrum. Hver staður er svo kvaddur með tónleikum.
„Þetta er hugmynd sem Jakob kom með fyrir nokkrum vikum, að fara í tónleikaferðalag með þessum hætti, leggja land undir fót og leyfum ólíkum stöðum, náttúru og öðru að hafa áhrif á sköpun okkar. Þetta er líka gert til að skapa sérstöðu, engir tónleikar verða þá eins, en við gerum þetta líka til að leyfa okkur þremur að kynnast upp á nýtt, að leggja til eitthvað nýtt inn í þessa hljómsveitarvinnu okkar þriggja og sjá hvert það leiðir okkur,“ segir Óskar og bætir við að þetta sé tvíþætt verkefni, því að ferðalagið verði kvikmyndað og út muni koma heimildarmynd um verkefnið sem danskur kvikmyndagerðarmaður, Andreas Koefoed, framleiðir.
„Að hluta til eru staðirnir líka valdir út frá því, þeir hafa sérstöðu og henta vel til kvikmyndunar og þessa verkefnis.“
Óskar segir Jakob aðeins hafa komið tvisvar til Íslands áður, í bæði skiptin til að spila, en þá í höfuðborginni Reykjavík, svo að ferðalagið verði spennandi fyrir hann, að koma í fyrsta sinn á fyrrnefnda staði.
„Við spiluðum allir þrír saman í fyrsta skipti árið 2022 þegar Jakob kom hingað á djasshátíð og þetta verkefni núna spratt að einhverju leyti út frá þeim kynnum og þeirri spilamennsku. Við Skúli höfum aftur á móti þekkst lengi og Skúli var upptökustjóri að fyrstu plötunni sem ég gerði og tók upp í Ingjaldshólskirkju á Snæfellsnesi árið 1997. Auk þess höfum við Skúli gefið út tvær plötur saman, Eftir þögn, og Box Tree.“
Þegar Óskar er spurður að því hvað það sé sem tengi þá þrjá svo vel saman í tónlistinni sem raun ber vitni segir hann að við samspil komi æði snemma í ljós hvernig og hvort fólk tengist í músík.
„Þetta gerist oft á fyrstu mínútunum þegar maður byrjar að spila saman, en það er ekki auðvelt að segja hvað það er sem nákvæmlega tengir fólk saman í spilamennsku. Það er einhver fagurfræði, eða einhvers konar sameiginlegur grunnur sem fólk hefur með sér, og getur þá passað saman.
Það liggur einhver sameiginleg tónlistarleg taug á milli fólks, en þetta snýst líka um á hvað fólk hefur hlustað, hvernig fólk vill spila músík. Þetta snýst í raun allt um hvernig fólk hlustar á hvert annað í spilamennsku, hlustun tónlistarfólksins sem maður spilar með er það sem hefur mest áhrif á hvernig maður spilar. Fyrsta viðbragðið við því hvernig maður spilar er hvernig maður hlustar. Hlustun hvers og eins í samspili breytir svo miklu um hvað getur gerst músíklega, hvað kemur út úr samspilinu. Þetta dansar allt á hlustuninni, hvernig maður hlustar og hvað manni finnst passa við það sem einhver annar er að spila, hvað eigi að koma næst. Það er alltaf stóra breytan í því hvernig er að spila með fólki. Svo er fólk með sína rödd, hvernig það spilar og hvernig það nálgast músík og svo framvegis.
Stór hluti af þessu er líka félagslegur, hvernig fólk rekst saman, til dæmis hvernig fólk skynjar þögn, hvort sem er í tónlist eða samtali, hvort spuninn eigi sér eðlilegan þráð eða hvort það sé þvingað.
Allir þessir mannlegu eðlisþættir hafa áhrif. Hið mennska í okkur öllum er það sem við erum öll að leita að, og við erum líka að leita að mennskunni í músíkinni, leita að því hvað það sé sem geri fólk að því sem það er. Það er alltaf berskjöldun að vera músíkant eða listamaður, því þú ert alltaf að setja eitthvað á borð sem þú þarft að díla við hvernig fólk tekur, hvort einhver vilji hlusta. Maður vonast eftir tengingu, að maður geti tengst fólkinu sem maður spilar fyrir.“
Þegar Óskar er spurður að því hvort hann eigi von á því að staðirnir hafi ólík áhrif á þremenningana og veki þá þar af leiðandi til ólíkrar tónlistarsköpunar, segist hann ætla að passa sig að leggja af stað með mjög litlar hugmyndir um hvað þetta nákvæmlega verði.
„Ég á von á því að það verði ofsalega gefandi, athyglisvert og skemmtilegt að takast á við músíkina með þessum hætti. Ég hef ekki gert þetta áður, að fara algerlega hreint af stað, og ég er spenntur að sjá hvað gerist á leiðinni frá fyrstu tónleikum í Hvalsneskirkju og þar til við höldum lokatónleika í Iðnó, frá fyrsta til síðasta giggs í ferðinni. Ég er spenntur að komast að því hvernig þróunin verði, hversu mikið við verðum farnir að spila kompónerað á síðasta giggi miðað við fyrsta, hvernig við munum takast á við það að semja á leiðinni. Sá þáttur finnst mér spennandi að takast á við og ég hlakka til.“
Tónleikadagskráin verður sem hér segir: 24. maí kl. 19 í Hvalsneskirkju í Keflavík, 25. maí kl. 18 í Vatnasafninu Stykkishólmi, 27. maí kl. 19 í Síldarsafninu Djúpavík á Ströndum, 29. maí kl. 19 í Gömlu Ljósastöðinni Siglufirði og 1. júní kl. 17 í Iðnó í Reykjavík, þar sem þeir kynna afraksturinn á djasstónleikaröðinni þar.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.