Það er að mörgu að huga þegar farið er í langt ferðalag eða heimsreisu og getur verið mikil kúnst að ákveða hvað eigi að taka með sér og hvað eigi að skilja eftir. Það er vissulega ekki hægt að taka með sér allt sem hugurinn girnist en hægt er að gera ótrúlegustu hluti með því að pakka skynsamlega, og hugsa um notagildi hlutanna. Þá er vel hægt að njóta sín í flottum fötum, með sæta fylgihluti og góðar snyrtivörur, fyrir þær sem það kjósa.
Fyrir þær sem eru alltaf með litaðar augabrúnir og augnhár, þarf ekki að örvænta en það þarf mögulega að þora að prófa eitthvað nýtt. Augabrúnalitur og festir taka ekki mikið pláss í tösku, ásamt áhöldum, litlum bursta eða greiðu. Þessar vörur endast líka lengi og ætti eitt sett að duga á margra mánaða ferðalagi. Þetta er því fínasta tækifæri til að prófa að lita sínar eigin augabrúnir og augnhár, hafi það ekki verið gert áður.
Stórar íþróttatreyjur hafa verið áberandi í götutísku undanfarið, og er bæði hægt að klæða þær upp og niður. Á ferðalagi er hægt að nota þær að kvöldi til, t.d. við pils, flottar stuttbuxur eða síðar hörbuxur. Einnig er hægt að skella sér í sömu treyju daginn eftir, þá yfir sundfötin. Bæta við sandölum, sólgleraugum, strandartösku, málið er dautt og nýtingin er frábær. Það er hægt að nálgast treyjurnar í öllum litum og mynstrum og er um að gera leyfa litagleðinni að ráða för.
Margar hverjar vilja taka með sér snyrti- eða jafnvel förðunarvörur, þó þær séu kannski notaðar í minna eða öðruvísi mæli en venjulega. Það er óþarfi að vera með þykkan farða og er hægt að komast upp með að taka með sér einn léttan farða eða BB krem, og hyljara. En sólarvörnin og gott rakakrem skipta mestu máli á ferðalögum, sérstaklega þegar verið er að flakka á milli svæða og hitastig breytist, eða í mikilli sól.
Þar er lykilatriði að skipuleggja sig og setja snyrtivörurnar í minni pakkningar svo að það sé hægt að koma þeim fyrir í bakpokanum. Það er ekki síður mikilvægt að hugsa um hárið og því betri sem vörunar eru, sem eru teknar með, því minni verður skaðinn eftir sjó, sand og busl. Það er bæði hægt að kaupa tóm fjölnota ílát og fylla þau af hár- eða snyrtivörum en víðast hvar er einnig hægt að kaupa snyrtivörur í tilbúnum ferðastærðum.
Á ferðalögum fá tærnar oftar að leika lausum hala en á Íslandi og er því ekki til betri tími til að fara í fótsnyrtingu. Hana er oft hægt að fá á hagstæðu verði, og á hverju horni, í ansi mörgum löndum. Það gerir óneitanlega mikið fyrir heildarmyndina að vera með fallega lakkaðar táneglur, þegar gengið er um í opnum skóm eða sandölum.
Strandhattur eða derhúfa er staðalbúnaður í sólríku veðri og varna því m.a. að ferðalangar fái sólsting. En derhúfur eru fyrirferðaminni í tösku og hafa þær því vinninginn fram yfir hattinn. Úrvalið í dag af derhúfum er orðið gríðarlega mikið og það er hægt að finna eitthvað fyrir alla. Þar má nefna derhúfu með texta, mynstri, í vintage-stíl eða klassíska í einlit fyrir þær sem vilja hafa þetta einfalt. Derhúfur lífga skemmtilega upp á öll dress, og fara meira að segja vel með sundfötum.
Skartgripir gera allt betra og er algjör óþarfi að sleppa þeim á bakpokaferðalagi, frekar þarf að velja vel og nota sömu skartgripina út ferðina. Úrval vatnsheldra skartgripa hefur stækkað með árunum og er hægt að finna slíkt í hinum ýmsu verslunum. Til að njóta þess að synda áhyggjulaus er hægt að kaupa slíkt, en ef erfitt er að finna vatnshelt skart er líka hægt að kaupa í ódýrara skart, sem er ekki ætlað sem eilífðareign, heldur til notkunar á ferðalaginu.
Það má ekki gleyma því að brosa, hafa gaman og njóta augnabliksins, því þá líta allar konur sem best út. Þessi dagur í dag kemur aldrei aftur, sér í lagi dagur sem býður upp á nýjar upplifanir, einhversstaðar úti í heimi, á bakpokaferðalagi.