Ingibjörg Isaksen, þingmaður í Norðausturkjördæmi og þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir greinilegt að hækkun veiðigjalda snerti ekki aðeins stærstu útgerðirnar.
„Áhrifin munu ná til tuga fyrirtækja sem starfa í kringum sjávarútveginn, verktaka, þjónustufyrirtækja og ferðaþjónustu. Fjárfestingum hefur þegar verið frestað víða um land. Áhrifamat liggur ekki fyrir á sveitarfélög og fyrirtæki sem þjónusta útgerðina og af því hef ég miklar áhyggjur,“ segir Ingibjörg en hún er ein þriggja þingmanna landsbyggðarinnar sem mbl.is ræddi við um veiðigjaldafrumvarpið.
Frumvarpið var ekki til umræðu á þingfundi gærdagsins, en næsti fundur hefst klukkan 10 í fyrramálið. Dagskrá hans liggur enn ekki fyrir.
„Nýjar upplýsingar og gögn undirstrika mikilvægi ítarlegri áhrifagreininga og aukins samráðs. Það er engin þörf á að flýta þessu máli óþarflega. Við eigum að fela fagaðilum að vinna vel úr gögnunum á næstu vikum,“ segir Ingibjörg um frumvarpið.
Jens Garðar Helgason, þingmaður í Norðausturkjördæmi og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði stjórnarandstöðuna hafa kallað eftir því að þingheimur setjist niður og reyni að finna sameiginlega lausn á þessu máli. Hann segist vilja að þingið gefi sér tíma til að vinna frumvarpið, þar sem mikið sér undir.
Hann segir 26 sveitarfélög hafa sent inn mjög alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og óskað eftir því að áhrif á sveitarfélagið séu greind en það hafi ekki verið gert.
Jens segir að fyrirhugaðar breytingar muni koma til með að hafa mikil áhrif á fyrirtæki í sínu kjördæmi og að hann hafi áhyggjur af rekstarafkomu þeirra.
Þá segist Jens einnig hafa áhyggjur af stöðnun í nýsköpun en hann bendir í því samhengi á umsögn frá tæknifyrirtækjum í sjávarútveginum, þar sem þau lýstu yfir áhyggjum af breytingunum.
Ólafur Adolfsson er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hann segir að í kjördæminu séu fyrirtæki að langstærstum hluta lítil eða meðalstór.
Ólafur segir breytingarnar vera áhyggjuefni fyrir fyrirtæki af þeirra stærðargráðu og telur því mikilvægt að vandað sé til verka. Hann segist vera sannfærður um að breytingarnar sem hafi verið gerðar á frumvarpinu hafi ekki verið nægilegar.
„Þó að það hafi verið gerðar ákveðnar umbætur, eins og hækkun afsláttanna, þá erum við engu að síður enn með frumvarp sem ég tel að þurfi að vinna meira í,“ segir Ólafur.
„Auðvitað er þetta ekki einfalt mál. Þetta er flókið mál. Það þarf að gera greiningar á öllum þessum útgerðarþorpum,“ segir hann.
„Þetta eru byggðir sem hafa verið að ná vopnum sínum og ná að rétta aðeins úr kútnum og þá er þeim mætt með þessu móti. Mér finnst það umhugsunarvert að það sé ekki vandað betur til verka en hefur verið gert.“
Ólafur segir þó margt gott hafa gerst síðan frumvarpið var lagt fram fyrst og að atvinnuveganefnd eigi hrós skilið fyrir ýmislegt eins og hækkun afslátta. Hún hafi þó ekki verið full sjálfstrausts í sínu nefndaráliti, þar sem hún slái ákveðna varnagla í álitinu.
„Þar segir að ráðuneytið eigi að vera á vaktinni gagnvart því ef að það komi upp atriði sem að benda til þess að frumvarpið sé að hafa meiri áhrif en menn telja,“ segir hann.
Ólafur segir að mikilvægt sé að búið verði þannig um íslenskan sjávarútveg að hann verði betur til þess fallinn að skapa verðmæti en í dag. „Samhliða því getum við alveg skoðað það að hækka veiðigjöldin. Við erum föst í einhverju með eða á móti dæmi núna. Það græða allir á því að íslenskur sjávarútvegur, styrkist ekki síst íslenska þjóðin,“ segir Ólafur.