Að mati margra stjórnmála- og efnahagsgreinenda virðist Donald Trump hafa gert allt rétt síðustu vikur og mánuði – og uppsker nú eins og hann sáði. Fjárfestar brosa, repúblikanar fagna og jafnvel andstæðingar hans horfa undrandi á þegar forsetinn fær stóra, fallega frumvarpið sitt samþykkt, krefur bandamenn um meira framlag til varnarmála og nær pólitískum og lagalegum sigrum á flestum vígstöðvum.
Stærsta skrefið á heimavelli var samþykkt hins svokallaða “One Big Beautiful Bill”, fjárlagafrumvarps sem felur í sér víðtækar skattalækkanir og aukin útgjöld til varnarmála. Skattar á þjórfé, yfirvinnu og lífeyrissparnað verða lækkaðir, og forsetinn heldur því fram að breytingarnar styðji við vinnandi fólk og örvi neyslu og framtakssemi.
Auk þess eru 25 milljarðar dala, um 3000 milljarðar íslenskra króna, eyrnamerktir loftvörnum og landamæravörslu, málaflokkum sem Trump hefur lengi sett í forgang. Sjónarmið um þjóðaröryggi og sjálfstæði í löggæslu skipa þar stóran sess.
Bandarískir hlutabréfamarkaðir hafa brugðist skýrt við. Á síðustu 30 dögum hefur Dow Jones hækkað um 6,2% og S&P 500 um 7,1%, samkvæmt tölum Bloomberg. Fjárfestar og markaðir virðast hafa tekið fagnandi á móti minni reglubyrði og væntingum um vaxandi hagnað stórfyrirtækja.
Sérstaklega hafa fyrirtæki á borð við Lockheed Martin, Raytheon og Boeing notið góðs af breyttum áherslum, bæði vegna fjárveitinga og þrýstings Trumps á NATO-ríkin.
„Stóra skatta- og útgjaldaáætlun Trumps er jákvæð fyrir hlutabréf, þangað til raunveruleg fjármálakrísa skellur á og markaðir dragast aftur saman“, segir Alexander Morris, framkvæmda- og fjárfestingastjóri hjá F/m Investments í samtali við Reuters og hvetur til hóflegrar bjartsýni.
Trump hefur einnig náð pólitískum sigrum erlendis. Í Kanada hótaði hann tollastríði nema ríkisstjórnin félli frá nýrri skattlagningu á bandarísk tæknifyrirtæki, sem hún gerði. Þetta þykir stór sigur fyrir forsetann og skýr sýn á nýja verndartollastefnu.
Innan NATO hefur hann knúið fram sögulega stefnubreytingu. Alls hafa 29 aðildarríki fallist á að verja á 5% af vergri landsframleiðslu í varnarmálaútgjöld, helmingi meira en fyrri skuldbindingar bandalagsins. Margir líta á það sem afdráttarlausan viljastyrk Trumps og viðurkenningu bandamanna á leiðtogahlutverki hans.
Á innlendum vettvangi hefur Hæstiréttur fellt úrskurð sem takmarkar vald lægri dómstóla til að túlka reglur stjórnvalda, úrskurð sem styður við stefnu Trumps í innflytjendamálum og dregur úr afskiptum ríkisstofnana á borð við EPA og FDA.
Í öðru máli lauk forsetinn einnig löngum ágreiningi við CBS sjónvarpsstöðina með sátt. Samkvæmt samkomulaginu greiðir stöðin Trump 16 milljónir dollara, tæpa 2 milljarða íslenskra króna vegna rangfærslu í umdeildu viðtali við Kamölu Harris varaforseta.
Samtímis sýna nýjustu tölur frá bandarískum yfirvöldum að fjöldi nýrra ólöglegra innflytjenda hefur dregist verulega saman. Í júní voru aðeins 6.070 ólöglegar komur yfir suðurlandamærin skráðar, sem er um 15% fækkun frá mars og það lægsta sem mælst hefur á þessu kjörtímabili. Samkvæmt tollgæslu og landamæraeftirliti (CBP) nemur árleg fækkun frá maí 2024 til maí 2025 allt að 93%. Hvort breytingin stafi af harðari gæslu, fælingaráhrifum eða breyttri stefnu stjórnvalda er ekki fullkomlega ljóst, en Trump hefur haldið því fram að þetta sé fyrsti raunverulegi árangurinn í landamæramálum frá árinu 2021.
Þrátt fyrir að pólitískt landslag í Bandaríkjunum sé enn litað af djúpum deilum, hefur Trump nú tryggt sér yfirburðastöðu. Með markaðina á uppleið, hæstarétt sín megin og helstu bandamenn gangandi í takt, er fátt sem bendir til þess að sigurgöngunni sé að linna.
Í fyrri útgáfu var vitnað í rangan heimildarmann.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.